133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

[10:33]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegur forseti. Málflutningur hv. þingmanns er mjög athyglisverður. Það hefur sjálfsagt ekki farið fram hjá neinum hér á undanförnum vikum að stjórnarandstaðan hefur knúð á um að fram kæmi frumvarp um auðlindaákvæðið í stjórnarskránni. Sérstaklega hefur verið herjað á Framsóknarflokkinn hvað þetta atriði varðar. (Gripið fram í: … ekki búið.) Það er nefnilega það.

Hér var efnt til blaðamannafundar fyrr í vikunni þar sem stjórnarandstaðan bauð fram krafta sína til að greiða fyrir því að mál af þessu tagi gæti farið hratt og örugglega í gegnum þingið. Það var sagt: Við bjóðum Framsóknarflokknum upp í dans.

Stjórnarflokkarnir hafa núna komið sér saman um frumvarp í þessu efni og það er flutt af formönnum stjórnarflokkanna. Til þess hafa þeir sama rétt og allir aðrir þingmenn og það er fullkomlega út í hött að kvarta yfir því að slíkt mál hafi ekki verið kynnt fyrir stjórnarandstöðunni fyrir fram miðað við hvernig þetta mál ber að. Það er eitt að ræða hér um málsmeðferð og síðan er annað að ræða um efni máls. Ég hef aldrei á 20 ára þingferli mínum orðið vitni að því að stjórnarandstaðan komi á fund með forustu í stjórnarflokkum og óski þess að fá skýringar eða kynningu á frumvarpi sem formenn stjórnarflokka hafa lagt fram. Til þess er 1. umr. málsins, til þess er greinargerðin með frumvarpinu og til þess er síðan að sjálfsögðu nefndarstarfið sem í hönd fer.

Við óskuðum eftir því í samræmi við vilja stjórnarandstöðunnar að þetta mál kæmist strax á dagskrá. Því var hafnað. Stjórnarandstaðan hafði ekki meiri áhuga á að koma þessu að en svo að hún hafnaði bón okkar um að þetta mál mætti ræða í þinginu hér í dag og koma því síðan til nefndar strax um helgina.

Þetta er nú staðan, virðulegi forseti, og menn geta síðan velt fyrir sér hversu mikil alvara hefur legið að baki málflutningi stjórnarandstæðinga í þessu máli og hve mikill hluti af þeirra málflutningi snerist um að koma illu til leiðar í stjórnarsamstarfinu eða að fíflast með alvarleg málefni.