133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

[10:36]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þarna komst hæstv. forsætisráðherra ákaflega vel að orði, „að fíflast með alvarleg málefni“, því að það er í raun og veru það sem verið er að gera hér að stórum hluta eins og þetta hefur verið lagt upp. Ef maður á að taka mark á útskýringum hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar í Kastljósi í gærkvöldi þýða þau ákvæði sem hér hafa verið lögð fram af forustumönnum ríkisstjórnarinnar nákvæmlega ekki neitt annað en það að festa í sessi núverandi kvótakerfi og eignarrétt manna á auðlindum. Það er ekki hægt að lesa neitt annað út úr því og er eina skýringin sem við höfum fengið frá stjórnarliðum opinberlega um þetta mál.

Ég vek líka athygli á því, hæstv. forseti, að í þessari tillögu er hvergi vikið að atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar, 75. gr., ekki minnst á það. Það er heldur ekki minnst á jafnræðisregluna í stjórnarskránni, að menn hafi neinn sérstakan rétt til að nýta auðlindir og að jafnræði skuli gilda. Það er ekki vikið að því með neinum hætti í þessari tillögu að þessar náttúruauðlindir megi ekki selja eða láta varanlega af hendi, nei, alls ekki. Frekar var það túlkað af hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni í gær að það einmitt mætti, og það ætti að sjá til þess að engin breyting yrði á varanlegu framsali í framtíðinni til útgerðarmanna, m.a. varðandi sjávarauðlindirnar.

Þessi málatilbúnaður hæstv. ríkisstjórnar er hrein sýndarmennska og ég held að einn stjórnmálaflokkur eins og Framsóknarflokkurinn hafi aldrei verið keyptur frá afstöðu sinni með eins litlum texta og lélegum og hér er.