133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

[10:38]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Eftir nokkra næturfundi forvígismanna stjórnarflokkanna er fram komin tillaga um breytingu á stjórnarskrá Íslands. Slík vinnubrögð eru ekki trúverðug. Stjórnarskránni á ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga en framganga Framsóknarflokksins, sérstaklega í þessu máli, ber öll þess merki. Pólitískt hnútukast hæstv. forsætisráðherra hér áðan er að mínu mati einnig óábyrgt og ekki sæmandi hæstv. forsætisráðherra þjóðarinnar.

Stjórnarandstaðan hefur boðist til að lengja þinghaldið og tryggja vandaða umfjöllun um tillögu til breytinga á stjórnarskránni. Það er grundvallaratriði að um stjórnskipan þjóðarinnar ríki stöðugleiki, sátt og festa. Að svo miklu leyti sem íslensk lög kunna að vera óljós um eignarréttarlega stöðu náttúruauðlinda okkar er brýnt að stjórnarskrárgjafinn finni leið sem er til þess fallin að stuðla að stöðugleika en festi þó ekki í sessi kerfi sem mikið ósætti hefur verið um á meðal þjóðarinnar. Vandséð er hvernig tillaga hæstvirtra ráðherra, Geirs H. Haardes og Jóns Sigurðssonar, þjónar þessu markmiði. Þvert á móti kynni að felast í samþykkt tillögu þeirra sú hætta að óvissa mundi skapast um eignarréttarlega stöðu auðlindanna.

Hæstv. forseti. Ég ítreka að stjórnarandstaðan hefur boðist til að lengja þinghaldið svo að tillögur um breytingar á stjórnarskránni geti fengið ábyrga og vandaða umfjöllun í þinginu. Við erum reiðubúin, eins og fram hefur komið, að koma til þings á morgun og hefja þá umræðu hér í þingsal.