133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

[10:45]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ef hér væri dömufrí mundi ég ekki bjóða hæstv. landbúnaðarráðherra upp í dans, ég vil bara að hæstv. landbúnaðarráðherra viti það, hann er a.m.k. ekki efstur á danskortinu mínu. (Gripið fram í.) Það kann hins vegar að vera að það komi að honum síðar en þá þarf ýmislegt að breytast.

Það er ljóst, hæstv. forseti, að samstarf um stjórnarskrárbreytingar á sér stað í ákveðnum farvegi í stjórnarskrárnefnd. Ég auglýsi eftir því að við fáum í þingsali á pappír frumvarp til breytinga á stjórnarskránni sem byggir á samkomulaginu sem náðist í stjórnarskrárnefndinni. Hvar er það frumvarp? (Gripið fram í.) Eigum við ekki að fá að ræða það sem þó fékkst niðurstaða um þar? Nei, við fáum hérna þingmannafrumvarp frá hæstv. ráðherrum sem byggir á einhverju allt öðru en var rætt í stjórnarskrárnefndinni. Í henni var rætt um umhverfisrétt og náttúruauðlindir, og sérfræðingar á sviði umhverfisréttar og náttúruauðlindastjórnunar komu fyrir stjórnarskrárnefndina með mjög afgerandi tillögur. Hvers vegna liggja þær ekki að baki því frumvarpi sem þessir hæstv. ráðherrar hafa hér lagt fram? Þessir hæstv. ráðherrar eru að ganga á bak orða sinna að því leyti að samkomulagið um stjórnarskrárbreytingar eigi að fara fram innan stjórnarskrárnefndar. Ég spyr og vil fá svör við því í þessari umræðu: Hvar er frumvarpið sem þó náðist samkomulag um í stjórnarskrárnefndinni? (BÁ: Það var ekkert frumvarp.)

Varðandi síðan togstreituna á milli stjórnarflokkanna þá er hún náttúrlega orðin nánast áþreifanleg í þingsal og á göngum hússins. Ég held að það skipti verulegu máli að menn nái einhverjum sáttum um þinglok. Það er ekki farið að ræða það hvaða mál stjórnarliðar ætli að setja í gegn og afgreiða sem lög frá Alþingi á þessum örfáu (Forseti hringir.) dögum sem eftir eru.