133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

mælendaskrá í athugasemdum.

[10:53]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegur forseti. Það er eðlilegt í svona miklu máli að fleiri biðji um orðið en komast að á 20 mínútum þannig að það er ekki við öðru að búast en að ekki komist allir að sem vilja. Ég geri auðvitað engar athugasemdir við það, virðulegur forseti. En forseti hefur ítrekað sagt hér, einmitt þegar gerð hefur verið upp umræða af þessu tagi, að forseti veiti mönnum orðið í þeirri röð sem þeir biðja um það.

Samkvæmt mælendaskrá sem var birt á sjónvarpsskjá í hliðarherbergi var ég á mælendaskrá á eftir hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Í fyrsta lagi geri ég athugasemdir við það að hæstv. forsætisráðherra skuli hafa verið hleypt inn í röðina því að hann var ekki á mælendaskrá. Hann fékk að tala síðast á undan mér og það varð til þess að ég komst ekki að.

Í öðru lagi geri ég athugasemd við það að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skuli vera á mælendaskrá á undan mér því að ég bað um orðið þegar hún var að ganga í ræðustól í fyrra sinnið. Það getur ekki gengið að ræðumaður sem hefur ekki hafið mál sitt geti tryggt sér sæti á mælendaskrá á undan þeim sem biðja um orðið.