133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

mælendaskrá í athugasemdum.

[10:55]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér finnst þessi fundarstjórn vægast sagt einkennileg og röðun þingmanna á mælendaskrá sömuleiðis. Ég fylgdist mjög grannt með því sem fram fór hér áðan vegna þess að ég er þingflokksformaður Frjálslynda flokksins. Ég fylgdist mjög grannt með því hvernig ræðumönnum var raðað niður og hvernig nöfnin komu fram á sjónvarpsskjánum vegna þess að það er mitt starf að sjá til þess að mínir menn komist að. Þeir höfðu beðið um orðið.

Ég er með punktað niður fyrir framan mig hvernig mælendaskráin leit út á skjánum. Það voru hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Kristinn H. Gunnarsson og síðan hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson.

Það vakti mikla furðu mína þegar ég sá allt í einu að hæstv. forsætisráðherra væri að koma í ræðustól öðru sinni, ég verð að segja það, og það kom þá að sjálfsögðu í veg fyrir að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fengi tækifæri til að tjá sig í ræðustól.

Hæstv. forseti vitnar í 56. gr. þingskapa. Ég tel að sú grein eigi vart við um þessar umræður, þ.e. umræður um störf þingsins. Hún er að mínu mati ætluð umræðum um lagafrumvarp. Ég hef ekki orðið var við annað, virðulegur forseti, á þeim tíma sem ég hef verið á þingi, tæp fjögur ár, en að sú hefð hafi ríkt að þingmenn séu settir á mælendaskrá þegar rætt er um störf þingsins í þeirri röð sem þeir biðja um orðið. Ég minnist þess ekki, virðulegi forseti, að farið hafi verið fram hjá þessari reglu þegar við erum að ræða mál undir þessum dagskrárlið. Ég beini þeim orðum til hæstv. forseta að hæstv. forseti virði þá hefð þannig að þingmenn geti treyst því að þegar þeir eru komnir á mælendaskrá sé það virt. Fólk er að sjálfsögðu búið að undirbúa sig fyrir þessar umræður og gerir ráð fyrir því að geta fengið að tala og gerir alls ekki ráð fyrir því að hér geti ráðherrar úr ríkisstjórn Íslands troðist fram fyrir þingmenn nánast eins og þeim hentar.