133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

mælendaskrá í athugasemdum.

[11:07]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Nokkuð hefur verið fjallað um það í fjölmiðlum að undanförnu að almenningur á Íslandi beri ekki virðingu fyrir störfum Alþingis. Ég vil að það komi fram að ég hef engar athugasemdir við fundarstjórn hæstv. forseta áðan. Ég tel að hún hafi staðið fullkomlega eðlilega að því að stjórna þessum fundi.

Ég held að við ættum að velta því fyrir okkur hvers vegna fólkið í landinu hefur þá skoðun á störfum okkar sem raun ber vitni. Þetta er það sem fólkið sér, viku fyrir áætluð þinglok er salurinn er eins og járnbrautarstöð. Hér er greinilega á ferðinni enn einn alþjóðlegur baráttudagur karla fyrir að komast í ræðustól, sem er hér í gangi 364 daga á ári. Í gær vorum við reyndar með alþjóðlegan baráttudag kvenna. (Gripið fram í: Einn dag.) Og hv. þingmenn skilja ekki að þjóðin beri ekki virðingu fyrir störfum þeirra.

Hvernig væri að fara að sinna þingstörfunum og hætta að eyða tímanum í botnlaust skilningslaust þvarg um það sem ekki skiptir máli? (Gripið fram í.) Hér var fundi vel stjórnað.