133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

samkomulag við Færeyjar og Grænland um skipti á ræðismönnum.

69. mál
[12:03]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þessi tillaga til þingsályktunar gengur út á að efla tengslin á milli Íslands, Færeyja og Grænlands með því að stofnaðar skuli ræðismannsskrifstofur í þessum löndum. Hér hefur farið fram umræða í fyrsta lagi um það hvernig ríkisstjórnin hefur borið sig að í þessu efni og bent á að þegar hafi verið tekin ákvörðun um að stofna til ræðismannsskrifstofu í Færeyjum áður en þessi þingsályktunartillaga er afgreidd í þinginu. Hitt hefði verið eðlilegt, ég tek undir þá gagnrýni.

Síðan hefur hv. þm. Mörður Árnason flutt hér efnismikla og áhugaverða ræðu um þingsályktunartillöguna, m.a. með tilliti til tæknilegra þátta og málfars. Það eru athugasemdir sem ég tel að þurfi að taka til skoðunar áður en þingsályktunartillagan verður afgreidd frá þinginu og þá væntanlega með breytingartillögum á orðalagi þingsályktunartillögunnar.

Varðandi efni þessarar tillögu eða þann kjarna sem hún snýst um, að efla tengslin á milli þessara þjóða, Grænlendinga, Færeyinga og Íslendinga, lýsi ég mjög miklum stuðningi við það. Þetta byggist á áskorun sem runnin er undan rifjum Vestnorræna ráðsins í ályktun sem það sendi frá sér á ársfundi ráðsins í Þórshöfn í ágústmánuði árið 2006. Í framhaldi kemur fram þessi áskorun frá íslensku fulltrúunum í Vestnorræna ráðinu um að ríkisstjórninni skuli falið að koma á ræðismannsskrifstofum í þessum löndum.

Nú eru samskipti á milli Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga allmikil og hafa verið að eflast. Þau eru síðar til komin við Grænlendinga en þó hafa þau vaxið hröðum skrefum á síðustu árum. Tengslin við Færeyinga byggja á eldri hefð en einnig þau tengsl hafa eflst mjög á undanförnum árum. Það er að gerast á ýmsum vettvangi, innan stjórnsýslunnar hafa menn samráð sín í milli, stjórnmálamenn hafa tengsl og sömuleiðis ýmis frjáls félagasamtök, þar á meðal verkalýðshreyfingin. Það er nokkuð sem ég þekki býsna vel til og þekki til samstarfs á milli BSRB sérstaklega og samsvarandi samtaka í Færeyjum. Þar hefur komið til sögunnar mikið samstarf á undanförnum árum. Allt þetta samstarf er góðra gjalda vert en það er þó mjög mikilvægt að koma því inn í formlegan fastmótaðan farveg. Það er m.a. gert með því að setja á fót ræðismannsskrifstofur eins og lagt er til í þessari þingsályktunartillögu.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta frekar. Ég kem hingað fyrst og fremst til að lýsa einlægum stuðningi mínum við þann anda sem er að finna í þessari þingsályktunartillögu, nefnilega að stórefla tengslin á milli Grænlendinga, Færeyinga og Íslendinga. Ég er sannfærður um að sú ósk á góðan hljómgrunn hjá íslensku þjóðinni almennt, það er vilji til þess að hafa náið og traust og gott samband með vestnorrænu þjóðunum og efla það sem fyrir er.