133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[16:17]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég lofa að vera ekki lengi í ræðustól. Ég verð að viðurkenna á mig að ég hef ekki lesið mikið í bókinni Rekstrarhagfræði eftir Ágúst Einarsson, hvorki byrjunina né endinn. Ég hafði ekki heyrt þetta um Silfur Egils. Ég hef hins vegar, eins og ég sagði áðan, heyrt þessar hugleiðingar fyrr, þessar spekúlasjónir bæði fyrr og síðar, um hve marga menn Ísland ber og hvað væri hæfilegt til að samfélagið væri menningarlegt, skemmtilegt og gott o.s.frv. að hér byggju margir. Þetta eru spekúlasjónir sem ég alltaf tekið sem hugarleikfimi sem sé út í bláinn.

Ágúst Einarsson var þingmaður Þjóðvaka á kjörtímabilinu 1999–2003 og síðan varaþingmaður á næsta kjörtímabili þar á eftir fyrir Samfylkinguna. Ágúst Einarsson er traustur og góður jafnaðarmaður og ég veit ekki betur en að hann sé enn í Samfylkingunni. Ég vona það. Hann hefur a.m.k. ekki skilist frá henni í neinum grundvallaratriðum. Ég hygg hins vegar að þarna sé það ekki stjórnmálamaðurinn Ágúst Einarsson sem er að tala heldur hinn hugmyndaríki fræðimaður, rekstrarhagfræðingurinn og viðskiptaprófessorinn Ágúst Einarsson. Hann hefur að sjálfsögðu allt það málfrelsi sem honum sýnist.

Það sem ég var að tala við hv. þm. Sigurjón Þórðarson um var að málrófi fræðimannsins má ekki blanda saman við stefnu Samfylkingarinnar. Ég tel það, við skulum orða það kurteislega, ekki rétt og ekki sanngjarnt af Sigurjóni Þórðarsyni að gera það, halda því fram að hugmyndir um innflutning 3–10 millj. manna til Íslands á næstunni séu á vegum Samfylkingarinnar.

Ég endurtek það sem ég sagði áður. Við erum uppi á þeim tímum að við verðum nauðug viljug að sætta okkur við eða fagna því, eftir því sem menn vilja, að hér verði stærri hluti þjóðarinnar en áður af erlendum uppruna. Ég tel það hreint ágætt. Ég tel að því fylgi margir kostir ef við kunnum að bregðast við og læra af mistökum annarra og góðri reynslu þar sem hún er fyrir hendi í grannlöndum okkar. Það eigum við að reyna að gera. Ég vona að Frjálslyndi flokkurinn geti hjálpað til við það þótt hann hafi farið nokkuð geyst í málin, skulum við segja til að halda áfram fullri kurteisi og eðlilegum samskiptaháttum í ræðum á þinginu.

Ég tel sjálfsagt að þetta haldi áfram og sé ekki hvaða ráð Frjálslyndi flokkurinn hefur til að stöðva það, eins og hann talar mikið um. Þá þyrfti að ganga úr alþjóðasamtökum sem við erum aðilar að. Ég legg hins vegar mikla áherslu á að við vörumst hættuna af félagslegum undirboðum, sem vissulega er fyrir hendi, og af því að hér verði einangruð þjóðarbrot eða minnihlutahópar í andstöðu við hluta af því samfélagi sem fyrir er í hinu íslenska samfélagi. Á hinn bóginn eru hættur sem stafa af því sem ég hef stundum kallað öfga-líberalisma í þessum efnum. Hann gengur út á að menn eigi nánast að skammast sín fyrir að vera Íslendingar, leggja af íslenska tungu í samskiptum sínum við útlent fólk og leggja litla áherslu á það að þeir sem hingað koma og vilji gerast Íslendingar læri íslensku o.s.frv.

Ég vara líka við því að erlent fólki sem hér sest að og verður Íslendingar fái ekki að vita að fyrir hendi er einhvers konar huglægur samningur sem síðan er staðfestur í kerfinu og reglugerðum sem við setjum meðal þjóðarinnar, milli þeirra sem fyrir eru og þeirra sem aðflytjast. Þeir sem fyrir eru taki á móti gestum sínum og nýjum fjölskyldufélögum með hæfilegum hætti og setji sér að gleðjast og hagnast á þeim fjölbreytileik sem í samfélagið kemur með þeim en gestirnir gerist á móti aðilar að íslensku samfélagi með öllu því sem því fylgir og tileinki sér hina þjóðlegu menningu okkar að því leyti sem þeim hentar og taki mark á undirstöðum íslensks samfélags sem byggjast á mannréttindum og virðingu sem við höfum reynt að leggja stund á. Ég ætla ekki að fara að nefna dæmi um hið gagnstæða en þau er að finna í grannlöndunum víðs vegar og ýmis mistök hafa verið gerð þar á undanförnum áratugum sem við eigum að geta lært af.

Síðan er vert að nefna annað mál, ég skal ekki lengja þingfundinn með því að ræða það lengi, en það getur, eins og ýmsir hafa bent á, komið til þess að við stöndum beinlínis frammi fyrir vanda af því tagi sem við ræddum. Að það sé ekki spurning um okkar vilja eða afstöðu heldur þurfum við beinlínis að horfa framan í stórkostleg vandamál sem stafa af þeirri loftslagsvá sem stendur fyrir dyrum. Menn hafa spáð því að ef okkur takist ekki, og þá tala ég í 1. persónu fleirtölu um nánast allt mannkyn, að draga úr losun og koma jörðinni aftur á sína braut hvað þetta varðar geti orðið miklir fólksflutningar af þeim svæðum sem verst verða úti og á þau svæði sem skást komast af. Sem betur fer, í miðjum hörmungunum, lítur út fyrir að Ísland sé í hópi hinna síðarnefndu. Þar eigum við að vísu við það vandamál að stríða sem Golfstraumurinn er. En hvernig hafstraumarnir fara út úr þeirri þróun sem fram undan er vita menn mjög illa og þau fræði eru kannski þau hæpnustu í loftslagsfræðunum enda hafa menn haft ýmsar spár þar uppi.

Þetta gæti gerst. Ég vona að svo verði ekki og við berum gæfu til þess á Íslandi og í öllum heiminum að forða okkur frá þessari vá. En hún er auðvitað allt annað en það sem rekstrarhagfræðingurinn var að ímynda sér í rekstrarhagfræði og þjóðhagfræðilegum hugarloftfimleikum sínum.