133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[16:29]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu ætti það að vera pólitískt umræðuefni. Ég hlýt að kalla eftir svörum við því frá hv. þm. Merði Árnasyni: Hvernig ætlar hann að koma í veg fyrir að þetta geti gerst? Hann lýsti því yfir áðan, ég heyrði a.m.k. ekki betur og hann leiðréttir mig ef ég fer með rangt mál, að hann teldi að þetta ætti að vera nokkurn veginn með þeim hætti sem það er í dag, þ.e. opið.

Við erum náttúrlega ekki nema 300 þús. á Íslandi. Við erum eins og eitt hverfi í Varsjá. Við erum ekki fleiri en svo. Ég held að þessir hlutir geti gerst mjög hratt ef við verðum ekki vakandi. Skoðum tölurnar yfir þá sem eru komnir hingað núna. Yfirgnæfandi meiri hluti þeirra, samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar, eru karlmenn á besta aldri. Ég geri ráð fyrir að langflestir þessara karlmanna eigi fjölskyldur í sínum heimalöndum. Það kæmi mér ekki á óvart að þeir væru að íhuga að flytja hingað með fjölskyldur sínar. Mér finnst eðlilegt að þeir séu að hugsa um það vegna þess að þótt íslenskt þjóðfélag sé ekki fullkomið að okkar mati, þá held ég að fólk frá fátækum löndum, sem sér íslenskt samfélag og hvernig okkur hefur tekist að byggja það upp með ótrúlegum dugnaði og krafti á tiltölulega stuttum tíma, búa hér til velferðarkerfi, menntakerfi, heilbrigðiskerfi og annað þar fram eftir götunum, að þessu fólki finnist það nánast verið komið í hið eina sanna draumaland.

Ég held að það sé þannig. Við getum ekki komið í veg fyrir það ef mikill fjöldi fólks, eins og ég segi, ákveður að flytja búferlum hingað til Íslands. Síðan vaknar spurningin um hversu hratt tekst að byggja upp atvinnulíf, íbúðarhúsnæði og annað sem þarf til að rúma það fólk sem hingað kæmi. Það er síðan annað úrlausnarefni en ég á ekki von á því að það þyrfti að taka svo ofboðslega langan tíma. Við sjáum að hér rísa íbúðahverfi í borgríkinu, sem bæði Ágúst Einarsson og formaður Framsóknarflokksins hafa talað fjálglega um. Hér rísa íbúðahverfi nánast hraðar en hönd á festir. Hér geta því hlutirnir gerst mjög hratt og óvænt ef við höldum ekki vöku okkar (Forseti hringir.) og ef við höfum ekki kjark til að ræða þessi mál og helst gera eitthvað í þeim.