133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[16:31]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vitna ekki mikið í þann mann en nú held ég að kominn sé tími til að vitna í Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, þar sem hann sagði af sinni snilli að skrattinn væri ekki gott veggskraut. Ég held að við nálgumst ekki umræðuna, svo ég noti vinsæla klisju í íslensku, með því að draga upp einhverjar hryllingsmyndir eða framtíðarsýnir úr rekstrarhagfræðinni. Ég held að þau úrlausnarefni sem við stöndum nú frammi fyrir verði ekki útkljáð með þeim hætti.

Má ég þá líka benda á að það er tvennt ólíkt þegar Ágúst Einarsson talar um að æskilegt væri að hér byggju 3 eða 10 milljónir og gerir það út frá módelum sem hann setur upp í rekstrarhagfræði og hefur, eins og ég segi, viljandi gleymt að taka með í reikninginn menningarlega þætti, félagslega og (Gripið fram í.) ekki síst íslenskulega og tungumálalega þætti.

Hitt er svo annað og allt öðruvísi þegar hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson eða sá sem hér talar ímyndar sér það sem gæti gerst við hamfarir, raunverulegar náttúruhamfarir í framtíðinni. Segja verður um það að ef slíkt mundi gerast mundu auðvitað vera notuð þau verkfæri sem til staðar eru í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið til að hægja á og vernda samfélagið fyrir þeim hættum sem því gætu fylgt. En við yrðum að sjálfsögðu líka, svo það sé klárt, að taka á okkur sammannlega ábyrgð sem vel stæð þjóð.

Ég get huggað hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson með því að ég held að þetta sé ekki alveg á næstunni, a.m.k. ekki á næsta kjörtímabili.