133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[17:07]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að það á að hafa samráð en ég verð að segja að ég var hissa á hv. þingmanni að vekja máls á vinnunni í Ásmundarnefndinni. (Gripið fram í.) Við vitum alveg hvernig það mál var. Það kom fram í andsvarinu. Ég er hissa á því.

Það er alveg rétt að Ásmundur og félagar hans töldu sig hafa gert samning þegar þeir komu fyrir heilbrigðis- og trygginganefnd en ég held að a.m.k. 14 manns, fulltrúar eldri borgara, sem sátu þar fyrir framan okkur hafi verið algjörlega sammála um að þeim hefði verið stillt upp við vegg og að þeir hafi ekki átt neinn annan kost en að taka þessu. Þeir litu á þetta sem yfirlýsingu og fyrsta skref. Þeir lýstu því einnig yfir að þeir ætluðu strax um haustið að sækja næsta skref. Það var því greinilegt að fulltrúar eldri borgara litu allt öðruvísi á þetta svokallaða samkomulag eða samning en fulltrúar stjórnvalda. Eldri borgarar litu á þetta sem yfirlýsingu og fyrsta skref.

Varðandi öryrkjana og skýrsluna sem verið var að kynna um nýtt örorkumat, þá hef ég fengið þau viðbrögð frá mjög mörgum úr hópi öryrkja og frammámanna þeirra að þeir séu ákaflega ósáttir við örorkumatsþáttinn og telja að breytingin geti bitnað illa á ákveðnum hópi öryrkja. Við skulum bara ræða skýrsluna, hún hlýtur að koma fyrir þingið. Ég tek fyllilega undir með Öryrkjabandalaginu um endurhæfingarþáttinn og það sem snýr að honum. Það er löngu tímabært og hefði átt að gerast miklu fyrr en nokkrum vikum (Forseti hringir.) fyrir kosningar að fólk sem misst hefur starfsþrek fái endurhæfingu til (Forseti hringir.) að komast aftur út í atvinnulífið.