133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[17:09]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp um málefni aldraðra þar sem lagt er til að þeir sem einungis greiði fjármagnstekjuskatt greiði jafnframt gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefur það ekki verið í lögum hingað til. Ég fagna því frumvarpinu, að menn ætli að koma þessu á, máli sem stjórnarandstaðan hefur margoft ýtt við.

Það er svolítið sérstakt að það virkar alltaf eins og að það séu að koma leiðréttingar varðandi þá sem einungis greiða fjármagnstekjuskatt, þeir eru undanþegnir í einu og öðru. Nú síðast var það í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um RÚV ohf. þar sem í ljós kom að þeir sem greiða einungis skatt af fjármagnstekjum eru jafnframt undanþegnir nefskatti til Ríkisútvarpsins. Þetta kemur því fyrir oftar en einu sinni.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að taka undir flest allt sem fram kom í ræðu hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra og nýtingu á honum. Það liggur við að hægt sé að segja að ríkisstjórnin hafi nánast sukkað með sjóðinn, hún hefur af einhverjum óskiljanlegum ástæðum brotið lög og reglur um það hvernig nýta eigi sjóðinn. Líkast til er eitt svartasta dæmið þar þegar hæstv. heilbrigðisráðherra sá ástæðu til að nota sjóðinn til þess að gera það sem margir mundu kalla kosningabækling.

Ég ætla jafnframt að leyfa mér að taka undir orð hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur varðandi svörin sem þingmaðurinn kallaði eftir um það í hvað fjármunir í sjóðnum hefðu farið. Ég verð að viðurkenna að mér finnst það hálfgert yfirklór að ætla að setja lög um það núna að eftir næstu kosningar megi ekki sukka með sjóðinn eins og ráðherrarnir hafa gert.

Varðandi málefni aldraðra almennt þá verð ég að viðurkenna að ég er afskaplega hissa á hv. þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Ástu Möller, að leggja í andsvör til að reyna að bera í bætifláka fyrir aðkomu Sjálfstæðisflokksins að málefnum aldraðra. Ég held að allri þjóðinni sé ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn og ríkisstjórnin er gjörsamlega með allt niður um sig í þeim málum. Það er rétt sem hér hefur verið nefnt á að það voru viðræður milli ríkisstjórnarinnar og samtaka eldri borgara og eins og alþjóð veit var talað um að gert hefði verið samkomulag en við fyrsta tækifæri var það allt þverbrotið. Það dylst engum og ég held að menn ættu ekki að eyða tíma á hinu háa Alþingi í að reyna að snúa sig út úr þeim staðreyndum.

Hvers vegna í ósköpunum ríkisstjórninni er svona illa við aldraða í landinu veit ég ekki, fólkið sem skapaði það þjóðfélagsástand sem er í dag, þá hagsæld sem hér ríkir o.s.frv., grunn að þeirri hagsæld. Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að ég skil ekki af hverju þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru enn og aftur að eyða tíma sínum í það að reyna að afsaka gjörðir sínar og reyna að telja Alþingi og öðrum trú um að þeir hafi unnið vel fyrir þennan þjóðfélagshóp. Það hlýtur að liggja í augum uppi þegar stórir hópar aldraðra velta því fyrir sér að koma með sitt eigið framboð til Alþingis að þeir eru ósáttir. Þetta væri ekki að gerast og þessi umræða hefði ekki verið í gangi á undanförnum mánuðum nema af því að aldraðir eru ósáttir við sitjandi ríkisstjórn. Það eitt ætti að duga öllum til að átta sig á hve illa í rauninni hefur verið farið með þennan þjóðfélagshóp að hann sér sig knúinn til að stefna að eigin framboði til þess að ná málum sínum fram.

Embætti umboðsmanns aldraðra er nokkuð sem við ættum eflaust að taka upp. Það mál hefur oft verið lagt fram af hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni en því miður hefur það aldrei hlotið náð fyrir augum ráðherranna. Er það miður því að ég held að það væri afskaplega nauðsynlegt að aldraðir hefðu sinn eigin umboðsmann til að verja sig fyrir óréttlæti sem alla vega núverandi ríkisstjórn hefur beitt þá, ég tala ekki um ef núverandi ríkisstjórn heldur velli, sem ég vissulega vona ekki því að ég get þá ekki séð að aldraðir eigi von á betra.

Hvað varðar Framkvæmdasjóð aldraðra þá held ég, herra forseti, að við ættum að taka alveg sérstaka umræðu um hann, fyrr en seinna, og fara vandlega ofan í það mál þar sem verið er að veita úr sjóðnum til hinna ótrúlegustu hluta, eins og hv. þingmaður nefndi áðan, í stað þess að nota hann til að byggja upp hjúkrunarrými o.fl. fyrir aldraða.