133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[17:18]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé enga ástæðu til að svara fyrir Sighvat Björgvinsson. Ég vil hins vegar minna hv. þm. Ástu Möller á að þegar Sighvatur Björgvinsson var við völd fór Sjálfstæðisflokkurinn með sjálft fjármálaráðuneytið. Þannig að síðustu 16 ár, það er sama hvað þingmaðurinn segir, hefur Sjálfstæðisflokkurinn borið alla ábyrgð á þessu máli. Síðustu 16 ár hefur hann gersamlega hunsað málefni aldraðra, vilja þeirra og þarfir. Ekki er við mig að sakast.

R-listinn er heldur ekki mitt mál og ég efast reyndar um að þær sveitarstjórnir þar sem sjálfstæðismenn hafa verið við völd hafi neitt staðið sig betur en Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórninni. Síðustu 16 árin hefur Sjálfstæðisflokkurinn meira og minna farið með fjármál í landinu í gegnum fjármálaráðuneytið og það er því algerlega á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins hversu illa er staðið að málefnum aldraðra. Það geta þeir ekkert þvegið af sér, enda verður mönnum væntanlega refsað 12. maí.