133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[17:19]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera umhugsunarefni að það er skortur á hjúkrunarrýmum í Reykjavíkurborg sem er vandamálið. Það þekkir hv. þingmaður og er alkunn staðreynd. (Gripið fram í.) Þingmaðurinn hlýtur aðeins að skoða staðreyndir í því ljósi.

Mig langaði jafnframt að benda á, í tilefni orða hv. þingmanns um að hann teldi að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki staðið sig nægilega vel, að nýlega bárust upplýsingar, m.a. frá fjármálaráðuneytinu, þess eðlis að í samanburði við Norðurlöndin eru kjör aldraðra sambærileg. Við skulum halda því til haga. Gífuryrðin eru orðin svo mikil hjá stjórnarandstöðunni, henni er orðið svo umhugað um að komast í ríkisstjórn að hún notar öll tækifæri til að skjóta yfir markið með gífuryrðum, láta sannleikann liggja á milli hluta og ýkja og nota öll þau gömlu trikk. Staðreyndin er sú að kjör aldraðra eru sambærileg við það sem gerist á Norðurlöndum.

Ég vildi jafnframt benda á, og því erum við mjög stolt af, þær breytingar sem voru gerðar um áramótin á lífeyrisgreiðslum til aldraðra. Dregið er úr tekjutengingu, þ.e. verið er að skilja að lífeyrissjóðsgreiðslur til hjóna þannig að lífeyrissjóðsgreiðslur maka hafa ekki áhrif á tekjur hins aðilans frá almannatryggingakerfinu. Það hefur komið í ljós að þetta hefur sérstaklega gagnast konum. Tekjur kvenna í hjónabandi á lífeyrisaldri hafa í mörgum tilfellum aukist verulega. Þetta hefur verið baráttumál aldraðra um langt skeið og þetta er sérstakt fagnaðarefni í tilefni þess að í gær var baráttudagur kvenna. Ég tel að full ástæða sé til að benda sérstaklega á það. Kjör kvenna á ellilífeyrisaldri hafa batnað.