133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[17:21]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu alltaf rétt að fagna því sem vel er gert en það er afskaplega erfitt að fagna því sem hefði átt að gerast fyrir 10–20 árum og ríkisstjórnin rétt slefast til þess að gera núna korteri fyrir kosningar.

Minnst var á Reykjavíkurborg og reynt að klína öllum vandamálum á R-listann. Hjúkrunarrými vantar á fleiri stöðum en í Reykjavík og m.a. þar sem sjálfstæðismenn eru við völd, í Mosfellsbæ, Kópavogi og víðar. Ég hef ekki verið með nein gífuryrði en ef ég væri í ríkisstjórn væri ég ekki sáttur við, eins og ég sagði áðan, að menn væru að laga til í einhverjum málum rétt fyrir kosningar þegar Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að vera við völd í 16 ár. Ef þetta eru svona gífurlega góðar lagfæringar sem hv. þm. Ásta Möller er að tala um, af hverju var þá ekki löngu búið að gera þær? Er þingmaðurinn virkilega sáttur við hvernig farið hefur verið með aldraða síðustu áratugina? Nei, það þurfti að gera þessar lagfæringar, við erum sammála um það. Af hverju var þá ekki löngu búið að því? Hvernig stendur á því? Hvernig stendur á því að það er gert núna korteri fyrir kosningar?

Að vera að tala um gífuryrði hjá mér. Eru þetta ekki bara kosningabrellur? Hvað hefur verið gert með Framkvæmdasjóð aldraðra síðustu áratugina? Hvað er verið að gera annað en sukka með hann þar sem síðasta greiðslan úr honum er kosningabæklingur fyrir heilbrigðisráðherra? Er hv. þingmaður sáttur við það? (ÁMöl: Gífuryrði.) Þetta eru ekki gífuryrði. Hún hefur nánast viðurkennt það sjálf. Þetta er sukk með sjóði og það er engin ástæða fyrir hv. þingmann í Sjálfstæðisflokknum að reyna að hreykja sér af góðum verkum fyrir aldraða. Það koma nokkur kosningaloforð núna. Fyrir fjórum árum komu líka kosningaloforð, sem vandlega hefur verið farið yfir í dag, en þau voru svikin. Hvers vegna skyldum við ekki ætla að þessi loforð verði alveg eins svikin?