133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[17:23]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra. Tekin er út úr þeim lögum 10. gr. sem fjallar um Framkvæmdasjóð aldraðra og verið er að bæta í skatttekjur sjóðsins með því að taka nefskatt af því fólki sem hefur tekjur af fjármagni.

Nú er það svo, hæstv. forseti, að æ fleiri hafa tekjur af fjármagni og jafnvel þannig að þeim fer fjölgandi þeim öldruðum sem hafa eingöngu þær tekjur, það háar fjármagnstekjur að greiðslur úr almannatryggingakerfinu falla niður vegna hárra tekna. Það er gott út af fyrir sig en enn og aftur sýnir það hve bilið á milli ríkra og fátækra breikkar stöðugt því að enn fleiri eru þeir sem hafa eingöngu lífeyrisgreiðslur almannatryggingakerfisins og þær duga því miður, eins og hér kemur fram, ekki fyrir framfærslu. Það er staðreynd. Það er enn þannig að þrátt fyrir þessar breytingar eiga börn að 16 ára aldri — ég hefði talið að eðlilegt væri að miða við 18 ára aldur — og þau sem eru 70 ára í lok tekjuárs ekki að greiða þennan nefskatt. Nefskattur er í eðli sínu mjög óréttlátur skattur eins og ég hef margtekið fram. Við ræddum það m.a. í umræðum um Ríkisútvarpið og tekjustofna þess, að nefskattur kemur alltaf þyngra niður á þeim sem lægri tekjur hafa eðli máls samkvæmt.

Miðað er við að þeir sem hafa lægri tekjur en 1 millj. og 80 þús. kr. greiði ekki þennan nefskatt enda eru það það lágar tekjur að þær duga ekki til framfærslu. Þetta beinir enn og aftur sjónum okkar að þeirri staðreynd að við erum með persónuafslátt sem er of lágur í dag. Skattleysismörkin þyrftu í dag að liggja kringum 150 þús. krónurnar til þess að það væri nálægt framfærslumörkum og þó er það í lægri kantinum.

Hæstv. forseti. Við í stjórnarandstöðunni höfum ekki tekist á um upphæðir eða skattleysismörk varðandi þessa breytingu. Það gerðum við í upphafi þings og eins við afgreiðslu fjárlaga. Við styðjum þessa breytingu þannig að þeir sem hafa tekjur af fjármagni greiði nefskatt eða fastan skatt í Framkvæmdasjóð aldraðra.

Síðan er það annað mál hvernig Framkvæmdasjóður aldraðra hefur verið notaður og nýttur mörg undanfarin ár. Hann var settur á vegna brýnnar þarfar á að fara í uppbyggingu hjúkrunarheimila og var fyrstu árin eingöngu nýttur til þess. Þegar ástæða þótti til að styrkja rekstur hjúkrunarheimila var gripið til þess ráðs að skerða hlutfall til framkvæmda og æ stærri hlutur fór í rekstur og síðan til annarra hluta sem tengdust öldrunarmálum. Allt að helmingur af sjóðsframlaginu hefur farið í annað en uppbyggingu. Nú verður þetta liðin tíð á næsta ári og er það vel. Við í stjórnarandstöðunni höfum kallað eftir því við afgreiðslu fjárlaga á hverju einasta ári að þessu verði hætt, að fjármagnið verði notað til uppbyggingar.

Mikilvægt er að horfa til þess að uppbygging á þjónustu við aldraða snýst um fleira en hjúkrunarheimili eins og við höfum þekkt þau fram til þessa. Það er mikilvægt að uppfylla þá brýnu þörf sem er í dag á höfuðborgarsvæðinu en síðan er mikilvægt að horfa til þess að aukin krafa er um annars konar þjónustu í annars vegar búsetuformi eða þjónustu við aldraða til lengri tíma. Ég tel að framkvæmdasjóðurinn eigi í framtíðinni að styrkja byggingu þjónustuíbúða og sérstakra búsetuúrræða á móti sveitarfélögunum. En það verður verk nýrrar ríkisstjórnar að gera það og verða þar með við kröfu aldraðra um annars konar þjónustu, meiri og betri nærþjónustu, annars konar uppbyggingu heldur en eingöngu hjúkrunarheimila. Að meiri áhersla verði lögð á þjónustuíbúðir og sérstök búsetuúrræði þannig að auðveldara verði að aðstoða fólk við að búa sem lengst í eigin íbúð eða búa út af fyrir sig.

Nú erum við eingöngu að taka eina grein út úr lögum um málefni aldraðra Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur að Landssamband eldri borgara og Samtök aldraðra hafa mótmælt því, og sýnt mótmæli í verki með því að koma ekki á boðaðan fund í hv. heilbrigðis- og trygginganefnd, að enn og aftur sé verið að taka eina grein út úr lögunum, að ekki sé farið af stað með þau loforð að fara í heildarendurskoðun á lögunum. Það var hluti af þeim loforðum sem hæstv. ríkisstjórn gaf, og var í þessum svokallaða samningi sem var gerður á síðasta ári, að fara í heildarendurskoðun á lögum um málefni aldraðra. Það er mjög brýnt og þar tel ég að náið samráð verði að vera á milli ríkisstjórnar og aldraðra og það verði að hlusta á þarfir aldraðra og hvaða hugmyndir þeir hafa í sínum eigin málum.

Áðan var þess getið að sárlega vantar meiri og betri þjónustu fyrir alzheimersjúklinga og þá ekki síður fyrir yngri alzheimersjúklinga. Það vantar dagvistir og það vantar hvíldarinnlagnir og þetta er á fleiri stöðum en hér á höfuðborgarsvæðinu þó að hér sé þjónustan brýnust. Varðandi alzheimersjúklingana þá vantar líka betri þjónustu sem getur verið í formi liðveislu eða meiri félagsþjónustu sveitarfélaganna. Enn og aftur fer þetta að snúast um peninga og þjónustu sveitarfélaganna. Ef við viðurkennum að samkvæmt samanburði við önnur lönd séu fleiri hjúkrunarheimili á íbúa hér en á öðrum Norðurlöndunum, ef við miðum okkur við þau, er ljóst að til þess að vera á svipuðu þjónustustigi þurfum við að auka nærþjónustuna og þjónustu sem er á vegum sveitarfélaganna.

Komið hefur fram í svari hæstv. heilbrigðisráðherra og verið rætt á þinginu að sveitarfélögin hafi dregið úr félagsþjónustu við aldraða. Hæstv. forseti. Ég get því miður ekki vitnað akkúrat í svarið, það hefur legið fyrir í nokkra daga, en ég man það ekki nákvæmlega. Það á að hafa komið fram að sveitarfélögin hafi dregið úr þjónustu við aldraða og það segir mér eingöngu eitt, hversu bág fjárhagsstaða sveitarfélaganna er. Ekkert sveitarfélag hefur áhuga á því að draga úr þessari þjónustu. Það hefur enginn áhuga á því að koma öldruðum inn á hjúkrunarheimili eða dvalarheimili ef ekki er þörf á því. En það hefur aftur á móti verið ákveðin tilhneiging í þá átt að aldraðir fari inn á dvalarheimili eða hjúkrunarheimili frekar en að veita nærþjónustuna. Það er eingöngu vegna þess að sveitarfélögin vantar fjármagn til þess að geta sinnt þessu betur, þau vantar fjármagn til þess að greiða fólki laun til að vera í þessari þjónustu. Dæmi eru um að það sé vilji hjá sveitarfélögunum að sinna þessu betur en þau hafa hreinlega ekki tök á því að greiða laun til þess að halda fólki í öldrunarþjónustunni. Þar með brestur þessi þjónusta.

Ég tel brýnt fyrir næstu ríkisstjórn að skoða þessa hluti, þ.e. ef við meinum eitthvað með því að stuðla eigi að því að aldraðir og öryrkjar lifi sem lengst í eigin húsnæði eða við þær aðstæður að þau búi út af fyrir sig. Ef við viljum að nærþjónustan sé sterkari verða líka tekjustofnar sveitarfélaganna að vera sterkari. Ekki er eingöngu verið að horfa á Framkvæmdasjóð aldraðra heldur sveitarsjóðina, hæstv. forseti.