133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[18:01]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég leyfði mér hér fyrr á þinginu að flytja tillögu eða frumvarp um breytingar á skattalögum þess efnis að fólk sem þægi lífeyrisgreiðslur borgaði skatta í samræmi við fjármagnstekjuskatt. Enda sé þar um að ræða að mínu mati sams konar sparnað og á sér stað þegar menn leggja fé sitt inn á bankabækur til ávöxtunar.

Þá stóð hv. þm. Pétur Blöndal upp og andmælti þeim tillöguflutningi og þeim hugmyndum sem að baki frumvarpinu stóðu. Nú gerist það enn og aftur að hann kemur hingað upp, hv. þingmaður, og gerir athugasemdir við efnisinntak ræðu minnar og þá punkta sem ég hef lagt fram. Þó við getum þráttað um hvort ég hafi reiknað með tekjutengingu eða ekki eða hvort ég hafi reiknað rétt út hvert frítekjumarkið væri eða ekki get ég ekki dregið aðra ályktun af ummælum og afstöðu þingmannsins en þá að hann sé sömu skoðunar og hv. þm. Ásta Möller um að ástandið sé harla gott.

En ef við hættum nú karpinu um það hvort þetta er reiknað svona eða hinsegin er niðurstaðan samt sú að mínu mati, að kjör og hagur eldri borgara er meira og minna til skammar. Við ættum að sjá sóma okkar í að rétta þessu fólki hjálparhönd með þeim breytingum á kerfinu sem við höfum vald til þess að gera. Ég vænti þess að í næstu kosningum víki kjósendur frá því fólki sem nú situr á Alþingi (Forseti hringir.) og er enn að telja sjálfu sér og öðrum trú um að ástandið sé harla gott.