133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

bókhald fyrirtækja í erlendri mynt.

[15:09]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Svar hæstv. forsætisráðherra var alveg út í hött. Ég fagna því að sjálfsögðu að nú skuli vera búið að semja við kennara og ætli það hafi ekki verið m.a. fyrir tilstilli þingmanna Samfylkingar hér á Alþingi þar sem þeir tóku upp þetta mál. Ekki má heldur gleyma framgöngu bæjarstjórans í Hafnarfirði, Lúðvíks Geirssonar, til að liðka fyrir málinu. Þá var ýtt við stjórnvöldum og málið klárað.

Virðulegi forseti. Það er búið að vera ánægjulegt að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra um kennaramál. Ég fagna niðurstöðunni sem sagt.

Í þessari skýrslu sem ég vitna til er m.a. talað um helstu veikleika Íslands. Þar kemur fram takmarkað traust fjárfesta á gjaldmiðli landsins. Svo kemur undir liðnum „ógnanir“: Efnahagslegur óstöðugleiki vegna sveiflna í gengi íslensku krónunnar. Það er það, virðulegi forseti, sem ég var að spyrja út í, gagnvart Straumi-Burðarási í þessu tilfelli, og vegna þess sem kom fram á aðalfundi, (Forseti hringir.) að það fyrirtæki hyggist flytja úr landi. Þess vegna spyr ég forsætisráðherra: (Forseti hringir.) Er ríkisstjórnin að setja upp hindranir og reka fjármálafyrirtæki úr landi, eins og Vinstri grænir vildu reyndar?