133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

bókhald fyrirtækja í erlendri mynt.

[15:11]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ákaflega furðulegt við öll svör hæstv. forsætisráðherra við þessari spurningu hvað hann tekur þetta óstinnt upp. Hann segir þetta allt saman út í hött.

Mér finnst reglugerðin og þær tæknilegu hindranir sem er verið að setja hér alveg út í hött. Og það virðist vera starfandi í landinu nokkurs konar yfirforsætisráðherra sem hefur komið fram og tjáð sig um þetta mál, vitnað í afgreiðslu frá Alþingi sem er ekki rétt, komið svo með dulbúnar hótanir og fjármálaráðuneytið og ríkisstjórnin verða við óbeinum fyrirmælum nokkrum dögum seinna. Og það hefur m.a. í för með sér að á aðalfundi Straums-Burðaráss talaði forstjórinn um að ef þetta gengi eftir gæti fyrirtækið ekki annað en flutt starfsemi sína úr landi. Þess vegna er alveg út í hött hvernig hæstv. forsætisráðherra bregst við þessu, en það er greinilegt að það kemur við kaunin á honum.

Spurningin er sem sagt þessi: Eigum við Íslendingar að þurfa að búa við það að þegar Davíð Oddsson, hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, hnerrar sé það dæmi um að Sjálfstæðisflokkurinn sé kominn með kvef?