133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

atvinnu- og byggðamál á Vestfjörðum.

[15:13]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Á fundi á Ísafirði í gær var samþykkt svofelld ályktun, með leyfi forseta:

„Opinn borgarafundur, haldinn í Hömrum á Ísafirði sunnudaginn 11. mars 2007, skorar á fulltrúa Vestfirðinga á Alþingi og í sveitarstjórnum, hvar í flokki sem þeir standa, að taka höndum saman, leggja flokkspólitísk ágreiningsefni til hliðar og sameinast um þau brýnu úrlausnarefni sem við blasa í atvinnu- og byggðamálum hér á Vestfjörðum. Fundurinn krefst þess að stjórnvöld standi við margítrekuð loforð og stefnumótun um uppbyggingu Ísafjarðar sem eins af þremur byggðakjörnum utan höfuðborgarsvæðisins. Enn fremur að þessu svæði verði settar sanngjarnar leikreglur með ákvörðunum um nauðsynlegar framkvæmdir í samgöngumálum, tilfærslu opinberra starfa og eðlilegt aðgengi að fjármagni. Mikið vantar á að þetta landsvæði njóti jafnræðis á við aðra landshluta varðandi samgöngur, fjarskipti, flutningskostnað, menntunarkosti og almenn skilyrði í atvinnulífi. Beinir fundurinn því til frambjóðenda stjórnmálaflokkanna í Norðvesturkjördæmi að mæta til kosningabaráttunnar nú í vor með haldbærar tillögur um framtíð byggðar á Vestfjörðum. Við köllum eftir samstöðu þings og þjóðar gagnvart þeim vanda sem Vestfirðingar standa nú frammi fyrir.“

Því miður er þetta ekki fyrsti fundurinn sem haldinn er vegna þess að ástand á Vestfjörðum sé með þeim hætti að þar fækkar fólki og atvinna minnkar. Þess vegna vil ég minna á það að við stöndum núna frammi fyrir meira en 20% fólksfækkun á Vestfjörðum frá 1995. Ég legg þess vegna þá spurningu fyrir hæstv. forsætisráðherra hvort hann sé tilbúinn til að leggjast á árarnar með fólkinu á Vestfjörðum, með þingmönnum kjördæmisins, m.a. í sérstöku átaki til að efla atvinnulíf, menntun og samgöngur á Vestfjörðum. Að því viljum við gjarnan vinna og ég vildi gjarnan heyra álit forsætisráðherra á þessari ályktun og því hvernig þingmannahópnum yrði tekið ef hann næði saman um ákveðna tillögu til forsætisráðherrans.