133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stuðningur við innrásina í Írak.

[15:18]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrir þinginu liggur tillaga til þingsályktunar frá formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar um að ríkisstjórninni verði falið að taka Ísland með formlegum hætti út af lista þeirra 30 þjóða sem studdu innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak vorið 2003. Ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn á Alþingi hefur ekki viljað verða við þessu og jafnvel fullyrt að þessi listi sé ekki til. Hæstv. iðnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins sagði í umræðu á þinginu fyrir fáeinum dögum að listinn væri í reynd ekkert annað en fréttatilkynning úr Hvíta húsinu, einhliða tilbúinn af Bandaríkjastjórn. Varaformaður Framsóknarflokksins hefur af svipuðu tilefni lýst því yfir að Íslendingar hafi verið misnotaðir, óafvitandi, af Bandaríkjastjórn í þessu efni.

Hæstv. forseti. Nú er hægt að sýna fram á að þetta er ekki rétt. Fyrir því eru óyggjandi heimildir. Í DV í marsmánuði árið 2003 er allítarlegt viðtal við þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson þar sem hann er spurður út í þessi efni. Hann segir að Bandaríkjastjórn hafi verið fullkunnugt um staðfastan stuðning íslensku ríkisstjórnarinnar við yfirvofandi hernað, við hernaðaráformin.

Hann segir, með leyfi forseta:

„Þegar við fengum boð um að fá að vera í hópi hinna staðföstu bandalagsþjóða svikumst við að sjálfsögðu ekki undan merkjum.“

Með öðrum orðum barst formleg beiðni og við henni var orðið. Það er óumflýjanlegt, hæstv. forseti, að þessar upplýsingar liggi fyrir í þinggögnum. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. forsætisráðherra hvort hann geti staðfest (Forseti hringir.) að hér sé rétt farið með af hálfu forvera hans í embætti forsætisráðherra Íslands.