133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[15:59]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að bíða með að ræða ýmis atriði sem hæstv. forsætisráðherra lét sér um munn fara varðandi frumvarpið þangað til í ræðu minni síðar í dag. Mig langar að varpa nokkrum spurningum til hæstv. ráðherra, í fyrsta lagi: Af hverju er þetta frumvarp þingmannafrumvarp en ekki ríkisstjórnarfrumvarp?

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hann: Hvenær hyggst hann leggja fram þá breytingartillögu sem varðar 79. gr. sem hann gerði hér að umræðuefni?

Í þriðja lagi, hæstv. ráðherra rifjaði það upp að stjórnarskrárbreyting af þessum toga þyrfti mikils undirbúnings við og mikillar umræðu. Hins vegar hefði ekki, eins og hann segir í ræðu sinni, náðst samstaða um það í stjórnarskrárnefndinni. Staðreyndin er að það var einungis einn flokkur sem lagðist gegn þessu ákvæði í stjórnarskrárnefndinni og það var Sjálfstæðisflokkurinn. Fyrst hæstv. ráðherra segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi núna dregist á það að leggja fram frumvarp af þessu tagi, hvers vegna í ósköpunum féllst þá ekki Sjálfstæðisflokkurinn á að ráðist væri í vinnuna í tíma eins og ég og formaður Samfylkingarinnar á sínum tíma lögðum til þegar við áttum bæði sæti í nefndinni? Þá hefði verið hægt að undirbúa þetta og gera þetta almennilega þannig að bragð yrði að en yrði ekki mönnum til skammar. Hvers vegna lagðist Sjálfstæðisflokkurinn gegn því í stjórnarskrárnefndinni að nefndin sameinaðist um ákvæði af þessi tagi? Og ef hæstv. ráðherra hefur tíma mætti hann svara því hvort það hefði þá verið yfirlýsing og íhlutun stjórnarandstöðunnar í kjölfar stjórnarslitahótunar Framsóknarflokksins sem olli því ein að þessi skyndilega samstaða náðist meðal stjórnarflokkanna.