133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[16:02]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Afstaða mín til þessa máls mun koma fram í ítarlegri umræðu af minni hálfu í dag. Fyrst varðandi þá staðreynd að hér er um þingmannafrumvarp að ræða en ekki ríkisstjórnarfrumvarp þá vil ég rifja upp að hæstv. þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson lagði fram frumvarp í ríkisstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks vorið 1995 um sameign á auðlindinni í sjónum. Það var ríkisstjórnarfrumvarp ef ég man rétt. Kann að vera að ekki hafi verið samstaða í ríkisstjórninni um þetta mál? Gæti verið að hæstv. heilbrigðisráðherra sem hótaði slitum á ríkisstjórn hafi ekki getað fellt sig við þetta? Gæti það verið ástæðan fyrir þessu?

Mig grunar það. Það er misklíð í ríkisstjórninni. Hæstv. heilbrigðisráðherra hótaði því að slíta henni og það kom fram í Morgunblaðinu að hún hefði verið beygð af þessum herramönnum sem hér sitja. Hæstv. forsætisráðherra þorir hins vegar ekki að upplýsa það hvers vegna fulltrúum Sjálfstæðisflokksins var bannað í stjórnarskrárnefnd að fylgja fordæmi hv. þm. Bjarna Benediktssonar sem samþykkti tillögu (Forseti hringir.) sem við hefðum öll getað fallist á. Var það kannski hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) sem bannaði þeim það?