133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[16:04]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt, þegar menn leggja fram frumvarp til breytinga á stjórnarskránni, að vandað sé til verka. Það er lykilatriði. Fara þarf mjög vandlega yfir þær tillögur sem koma fram og því er sá aðdragandi sem þetta mál hafði nokkuð sem menn staldra við.

Það er samt ekki það sem ég ætlaði að beina til hæstv. forsætisráðherra. Mér fannst ærlegt og heiðarlegt af honum að lýsa því yfir í framsöguræðu sinni að yfirlýsing í frumvarpinu, um að náttúruauðlindir Íslands skuli vera þjóðareign, hafi lítið sjálfstætt gildi heldur sé hún almenn stefnuyfirlýsing. Í því felst vitaskuld að efnisatriði ákvæðisins og kjarni er það sem kemur í framhaldinu. Ekki verður annað lesið út úr þessum orðum — það þýðir lítið að vísa til greinargerðar — en að heimilt sé að afhenda einstaklingum varanlega réttinn yfir náttúruauðlindum. Annað verður ekki lesið úr þessu, virðulegi forseti.

Sá sem hér stendur sat í auðlindanefndinni á sínum tíma og stóð að þeirri tillögu sem hún lagði til um stjórnarskrárbreytingu. Þá var lögð mikil áhersla á að hafa tillöguna nákvæma svo að vitað væri hvað við væri átt með stjórnarskrárákvæðinu en hér, virðulegi forseti, virðist mér allt skilið eftir opið. Það var ærlegt og heiðarlegt af hæstv. forsætisráðherra að lýsa því yfir í umræðunni að þessi stefnuyfirlýsing í fyrstu orðum frumvarpsins hafi litla efnismerkingu.