133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[16:13]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Í því frumvarpi til stjórnarskipunarlaga sem hér liggur fyrir og er flutt af formönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru að mínu viti fjögur meginatriði. Í fyrsta lagi er það mikilvægt í sjálfu sér, og um það hefur verið víðtæk samstaða meðal þingmanna úr öllum flokkum, að binda í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á okkar helstu auðlindum. Þegar ég segi að þetta sé mikilvægt er það vegna þess að þjóðareign hefur ákveðna merkingu, skilgreinda merkingu, sem m.a. var gefið inntak í vinnu auðlindanefndar á árinu 2000. Það sem er kannski kjarninn í því ákvæði sem þar er að finna er tvennt, virðulegur forseti, annars vegar skýrt ákvæði um að náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign megi ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Í öðru lagi séu þetta eignir og landsréttindi sem ekki séu í einkaeigu fyrir. Þetta eru tvö meginatriðin í þjóðareignarhugtakinu eins og það kom fram hjá auðlindanefndinni. Þetta er það sem þingmenn úr öllum flokkum hafa fallist á, og féllust á í skýrslu og álitsgerð auðlindanefndar.

Í öðru lagi hljótum við að gagnrýna mjög harkalega hér í umræðum í dag hvernig þessi tillaga formanna stjórnarflokkanna er fram komin, hvernig hana bar að, þ.e. það var engin viðleitni af þeirra hálfu til að ná samstöðu þvert á stjórnmálaflokkana á þingi og að auki kemur tillagan inn í þingið á lokadögum þess þegar mjög lítið ráðrúm er til þess að fjalla um hana.

Ég skildi forsætisráðherra svo hér áðan, í framsöguræðu hans, að ástæðan fyrir því hvernig þessa tillögu bar að og hvernig hún kom hér inn hafi verið sú að þeir hafi verið komnir í svo þrönga stöðu, stjórnarflokkarnir, vegna þess hvernig stjórnarandstaðan tók á málinu, að stjórnarandstaðan hefði verið búin að hrekja þá þannig út í horn að þeir hefðu ekki átt neinn kost annan en að bræða sig saman með einhverja tillögu sem þeir geta síðan ekki komið sér saman um þegar upp er staðið hvað merkir, sú hafi verið ástæðan. Ef við hefðum ekki hrakið þá út í þetta horn hefði væntanlega engin tillaga komið fram, þá hefðu þeir væntanlega aldrei staðið við sinn stjórnarsáttmála.

Ég vil rifja upp fyrir hæstv. forsætisráðherra upphaf málsins, og ég vona að hann hjálpi mér við þá upprifjun. Ef ég man það rétt skeði það í tengslum við flokksþing Framsóknarflokksins að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, formaður Framsóknarflokksins, sagði að ástæðan fyrir því að þessu máli var ekki lokið í stjórnarskrárnefnd hefði verið sú að þetta væri hluti af stjórnarsáttmálanum og þess vegna ættu þessir tveir herramenn að leysa það sín á milli en ekki einhver stjórnarskrárnefnd, ekki einhverjir fulltrúar allra þingflokka. Það var skýringin hjá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, formanni Framsóknarflokksins, að í rauninni væri þetta bara eitthvað sem þeir tveir ættu að koma sér saman um og öðrum kæmi ekki við. Það var þá sem stjórnarandstaðan ákvað að blanda sér í málið og segja: Auðvitað kemur okkur þetta við. Við erum þeirrar skoðunar að það eigi að binda þetta í stjórnarskrána, við viljum hafa áhrif á það hvernig þetta er orðað.

Þess vegna steig stjórnarandstaðan fram og hélt blaðamannafundinn og bauðst til að leggja ríkisstjórninni lið í þessu mikilvæga máli. En hún sló á þá útréttu hönd. Þessir tveir herramenn verða bara að eiga það við sig ef þetta er meingallað frumvarp og kemur hér fram á lokadögum þingsins. Það var af því að þeir vildu ekki nýta sér stjórnarskrárnefndina og ákváðu að hafa þetta bara sín á milli og helst ekki koma fram með það ef þeir hefðu komist upp með það.

Þetta er hvernig málið ber að, virðulegur forseti.

Í þriðja lagi vil ég nefna orðalag ákvæðisins eins og það er í frumvarpinu. Orðalag ákvæðisins skapar mikla réttaróvissu vegna mismunandi túlkunar á því. Það höfum við heyrt í umræðunni undanfarna daga, ýmist segja menn að þetta hafi enga þýðingu, þetta sé bara eins og eitthvert plat — ég hef heyrt það haft eftir ýmsum stjórnarþingmönnum að þetta sé merkingarleysa, það segja sumir, gott og vel. Aðrir segja: Þetta hefur umtalsverða þýðingu, það er verið að koma í veg fyrir að einkaeignarréttur myndist á sjávarauðlindinni. Það er merkingin í þessu, og ég heyrði að forsætisráðherra ýjaði að því í ræðu sinni áðan að þannig væri það. Það þýðir að mjög skiptar skoðanir eru uppi um hvað þetta þýðir. Þetta er í raun eins og óútfylltur tékki, víxill, sem dómstólunum verður síðan ætlað að túlka. Og þeir eiga tvo mismunandi valkosti í þeim efnum. Þannig að orðalag ákvæðisins skapar réttaróvissu og það er vont, virðulegur forseti.

Í fjórða lagi vil ég nefna, og það er mín skoðun og okkar í Samfylkingunni á þessu ákvæði eins og það birtist okkur og eftir að hafa þaullesið frumvarpið og borið undir ýmsa sérfræðinga í stjórnarskipunarlögum, að í raun sé verið að stjórnarskrárbinda réttinn til að úthluta þjóðareign án þeirra takmarkana sem eru núna í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Það er engin takmörkun í stjórnarskrárákvæðinu sjálfu eins og það kemur hérna fyrir, engin takmörkun á úthlutunarheimildum. Það segir okkur að það er komin rétthærri réttarheimild inn í stjórnarskrána sem er algjörlega án þeirra takmarkana sem núna eru í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Með þessu móti teljum við að verið sé að stjórnarskrárbinda réttinn til að úthluta þjóðareign án takmarkana.

Þetta er kannski það sem er varhugaverðast við þetta frumvarp eins og það liggur hér fyrir. Samantekið þarf í fyrsta lagi að setja inn ákvæði í stjórnarskrána um þjóðareign og það á að vera vel skilgreint þannig að enginn velkist í vafa um það hvað felst í hugtakinu þjóðareign. Í öðru lagi ber málið að með slæmum hætti, í þriðja lagi skapar það réttaróvissu og í fjórða lagi er verið að stjórnarskrárbinda réttinn til að úthluta þjóðareign.

Það mál sem hér er á ferðinni er stórt pólitískt mál. Þetta hefur verið deilumál hjá þjóðinni sem hefur deilt um aflamarkskerfið í sjávarútvegi allt frá árinu 1983. Eins og menn muna voru þau einungis sett til eins árs í senn fyrstu sjö árin eftir að þau voru sett. Það breyttist hins vegar 1990 og síðan þá hafa fallið dómar í Hæstarétti Íslands þar sem segja má að annars vegar jafnræðisregla stjórnarskrárinnar og hins vegar atvinnufrelsisákvæði hennar hafi brotið upp ákveðna lykilþætti kvótakerfisins. Það vekur sérstaka athygli að ekkert er gert með þessi tvö ákvæði stjórnarskrárinnar í því frumvarpi sem hér er um að ræða, atvinnufrelsisákvæðið eða jafnræðisregluna. Það er ekkert kveðið á um þau, bara einkaeignarréttinn.

Kvótakerfið var mjög umdeilt á sínum tíma. Það má segja að Framsóknarflokkurinn beri höfuðábyrgð á kvótakerfinu og Sjálfstæðisflokkurinn sé síðan fyrir sitt leyti andlegt heimili þeirrar hugmyndafræði sem keyrt hefur áfram auðsöfnun einstakra manna í kvótakerfinu á kostnað byggðanna í landinu í næstum aldarfjórðung. Í sjálfu sér er það ekki kvótakerfið sjálft sem er vandamálið heldur hvernig kvótanum var úthlutað á sínum tíma, í upphafi. Ég held að við getum öll verið sammála um að þó að farið sé að fenna í sporin hafi þjóðin samt aldrei sætt sig við að kvótanum væri úthlutað einhliða til útgerða en hvorki var sjómönnum, landverkafólki né byggðarlögum ætlaður nokkur réttur til kvóta né til auðlindarentu. Ég var einmitt á fundi á Ísafirði í gær þar sem staðan á Vestfjörðum var rædd og ég held að Ísfirðingar geti sagt hina dökku ófrelsissögu kvótakerfisins. Allt frá því að kerfið var tekið upp hefur sigið verulega á ógæfuhliðina á því svæði.

Fyrir síðustu kosningar komu auðlindamálin upp eins og endranær og þá kallaði þjóðin eftir því að staðið yrði við öll stóru orðin um rétt þjóðarinnar í þessu máli. Framsóknarflokkurinn sá sig þá tilneyddan og ég geri ráð fyrir því að hann hafi átt frumkvæðið að því að setja inn í stjórnarsáttmálann ákvæði um að binda þjóðareign í stjórnarskrána. Hann beitti sér hins vegar ekkert í málinu framan af kjörtímabili, ekki neitt. Síðan var skipuð stjórnarskrárnefnd í upphafi árs 2005 með miklum lúðrablæstri, mjög metnaðarfull vinna með heimasíðu, ráðstefnum og fundarhöldum, kallað eftir hugmyndum fólks. Svo þegar upp er staðið er það eina sem kemur út úr því ein tillaga um að breytingar á stjórnarskránni skuli bornar undir þjóðaratkvæði og hún hefur ekki enn ratað inn í þingið þrátt fyrir að sæmileg sátt hafi verið um hana í stjórnarskrárnefnd og hún hafi verið í líklega þrjár vikur núna á borði forsætisráðherra.

Framsóknarflokkurinn beitti sér ekkert í þessu máli með stjórnarskrárnefndina af því að hann leit svo á að þetta væri bara eitthvert mál sem þessir tveir herramenn ættu að leysa sín á milli. Eftir æpandi þögn Framsóknarflokksins um auðlindamál í stjórnarskrárnefnd varð svo skyndilega háreysti á dögunum í liðinni viku og í dag stendur Alþingi frammi fyrir verkefni sem á sér líklega ekki fordæmi í stjórnmálasögu landsins. Af hverju segi ég að þetta eigi sér ekki fordæmi í stjórnmálasögu landsins? Jú, vegna þess að ég held að það sé einsdæmi í stjórnmálasögunni að flokkar í ríkisstjórn leggi fram frumvarp til stjórnarskipunarlaga með þessum hætti, með þeim aðdraganda sem er á þessu máli. Ég held líka að það brjóti gegn þeirri áratugalöngu föstu hefð sem hér hefur verið á því að leita sem víðtækasts samráðs um stjórnarskrárbreytingar. Það var ekki gert í þessu máli. Og eina ferðina enn þegar ríkisstjórnin kemur fram með svona frumvörp vara allir lögfræðingar við því sem sett er inn í frumvarpstextann. Og núna vara þeir við af því að þetta skapar réttaróvissu.

Virðulegur forseti. Flutningsmönnunum, sem eru í senn formenn og ráðherrar, formönnum tveggja stjórnmálaflokka og ráðherrum í ríkisstjórninni, virðist vera alvara með því að henda frumvarpi eins og þessu inn í þingið þegar fimm dagar eru eftir, þrír og hálfur þingdagur í raun eftir af starfi Alþingis. Það hefði eitthvað verið sagt ef stjórnarandstaðan hefði staðið svona að verki.

Það sem er hins vegar verst í þessu er að það er verið að svara réttlætiskröfu frá fólkinu í landinu með blekkingu eins og þetta frumvarp lítur út. Formenn stjórnarflokkanna segja þetta sögulegar sættir og tímamót í 25 ára deilu en þeir eru í rauninni, virðulegur forseti, eins og svikalæknar sem eru að gefa lyfleysur í stað eðlilegra lyfja. (Gripið fram í.) Já, við getum kallað það þannig ef mönnum sýnist svo. (Gripið fram í.) Ég veit að ýmsir hv. stjórnarþingmenn hér í salnum mundu margir fremur vilja láta sig hverfa en að taka þátt í afgreiðslu þessa máls. Svo mikið veit ég, virðulegur forseti.

Þetta frumvarp er illa samið, það er óskýrt, þverstæðukennt og í vondu samræmi við íslenska lagahefð. Ég er sannfærð um að ef í þinginu væri starfandi laganefnd hefði þetta frumvarp ekki hlotið náð fyrir augum slíkrar laganefndar. Því miður er það ekki svo í þinginu, þetta er þingmannafrumvarp og ef hér hefði verið laganefnd hefði það að sjálfsögðu átt að fara fyrir slíka nefnd. Mér er stórlega til efs að það hefði komist í gegnum þá síu.

Ég sagði að þetta væri í vondu samræmi við íslenska lagahefð, óskýrt og þverstæðukennt frumvarp. Ég ætla aðeins að skýra það út.

Hugtakið þjóðareign sem auðlindanefnd sú sem lauk störfum árið 2000 lagði til sem sérstaka nýja tegund eignarréttar er hér tekið upp í orði kveðnu en án nokkurrar skilgreiningar í ákvæðinu sjálfu eða greinargerð. Hugtakið sjálft er ekki útskýrt. Allir lögfræðingar sem ég hef rætt við eru sammála um að þetta sé stór ávísun á réttaróvissu. Í stjórnarskrárákvæðinu, þessari grein þessa frumvarps, er hin óskilgreinda þjóðareign samstundis takmörkuð af 72. gr. stjórnarskrár sem verndar einkaeignarréttinn. Lögfræðingum sem ég hef borið þetta undir ber saman um að þetta skapi ákveðinn óskapnað í lögskýringu. Hver eru hin eiginlegu mörk þjóðareignar- og einkaeignarréttar? Vegur 72. gr. stjórnarskrár þyngra hér í skýringu en allar aðrar greinar stjórnarskrárinnar, þar með talin atvinnufrelsisákvæðið og jafnræðisákvæðið?

Í ákvæðinu eins og það kemur hérna fyrir eru allir lykilþættir þjóðareignarhugtaksins úr auðlindanefndinni frá 2000 felldir út. Ég hjó eftir því orðalagi hjá hæstv. forsætisráðherra að hann sagðist hafa tekið upp meginhugsunina í þremur málsgreinum tillögunnar eins og hún kom frá auðlindanefnd. Þetta fannst mér mjög merkileg útlistun hjá hæstv. forsætisráðherra, hann hefði tekið upp megininntakið í þremur málsgreinum tillögunnar eins og hún kom frá auðlindanefnd. Það er bara ekki nóg, virðulegur forseti, vegna þess að það sem er aðalatriðið í tillögu auðlindanefndar er sjálf skilgreiningin á þjóðareignarhugtakinu sem er ekki að finna í þessu frumvarpi eins og það liggur fyrir. Og hvað segir hér í tillögu auðlindanefndar sem þverpólitísk sátt var um? Þar er lagt til að tekið sé upp nýtt stjórnarskrárákvæði sem mundi hljóða svo, með leyfi forseta:

„Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.“

Svo segir, og þarna kemur kjarninn í þessu:

„Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi,“ — þar kemur auðlindarentan — „að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.“

Þetta er kjarninn í hugtakinu þjóðareign, þetta er skilgreiningin sem ekki er að finna í frumvarpinu sem hér liggur fyrir, virðulegur forseti.

Ég segi því enn og aftur að með ákvæðinu eins og það er hér sé verið að stjórnarskrárbinda réttinn til að úthluta þjóðareign án þeirra takmarkana sem eru í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Og ég held að fyrirvarinn sem er í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða sé kominn í ákveðið uppnám eftir að þessi breyting hefur verið gerð á stjórnarskránni og það sé komin rétthærri réttarheimild inn í stjórnarskrána en er í núgildandi lögum um stjórn fiskveiða. Þetta er kannski það alvarlega, eins og ég hef margsagt, í þessu máli.

Eins og í starfi stjórnarskrárnefndar lýsi ég því yfir fyrir hönd Samfylkingarinnar að við styðjum það fullkomlega að þjóðareignarhugtakið komi inn í stjórnarskrá og sé útfært með þeim hætti sem auðlindanefndin frá árinu 2000 skildi við það. Um það varð sátt og þetta er mjög svipað og var síðan líka góð sátt um í stjórnarskrárnefnd en sem náði síðan aldrei að verða að veruleika af einhverjum ástæðum sem ég ekki þekki. Fulltrúar allra flokka áttu aðild að auðlindanefndinni, nei, að vísu var Frjálslyndi flokkurinn ekki með í nefndinni, en það varð víðtæk samstaða og þar starfaði fólk af heilindum. Það var mikilvæg niðurstaða sem þar náðist og ég tel að við hefðum átt að byggja á þeirri vinnu og byggja á þeim tillögum sem lágu fyrir í stjórnarskrárnefnd. Þá hefði verið hægt að ná víðtækri sátt í þinginu um þetta mál.

En við eigum engan hlut að þessari gjörð eins og hún liggur hér fyrir. Hana mega þeir eiga sem til hennar hafa efnt en við munum að sjálfsögðu taka þátt í málefnalegri umræðu um þetta og vinnu í þeirri sérnefnd, stjórnarskrárnefnd hér í þinginu, sem mun fá málið til umfjöllunar.