133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[16:33]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka formanni Samfylkingarinnar, hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrir mjög áheyrilega og góða ræðu. Ég get tekið undir flest í henni enda er flest þar í anda þess sem við í Frjálslynda flokknum höldum fram. Þó var eitt sem ég hnaut um, hvað varðar kvótakerfið, að það væri í sjálfu sér ekki vandamál. Ég tel einmitt að það sé vandamál og sérstaklega frjálsa framsalið. Við sjáum afleiðingar þess m.a. á Ísafirði. Í gær var haldinn stór fundur vegna þess að Vestfirðingar hafa misst frá sér aflaheimildir og mér finnst einmitt kvótakerfið vera vandamál í sjálfu sér, þ.e. frjálsa framsalið, og að ekki sé hægt að líta fram hjá því.

Einnig verðum við að líta á það að upphafleg markmið þessa kerfis hafa mistekist, þ.e. að byggja upp fiskstofnana og ekki síður að tryggja byggð í landinu. Þetta kerfi er algerlega misheppnað í mínum huga, það er í raun ekki hægt að horfa fram hjá því í þessari umræðu.