133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[16:38]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi varðandi þau orð þingmannsins að stjórnarandstaðan hefði verið tilbúin til þess að setja inn í stjórnarskrána ákvæði og taka orðalagið frá stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þá er auðvitað ekki hægt að taka það nákvæmlega eins og það stendur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna þess að það er einfaldlega ekki tækt með þeim hætti inn í stjórnarskrána. Það sem í því fólst, og það á þingmanninum að vera alveg ljóst, var að stjórnarandstaðan var tilbúin til þess að einskorða sig við að þetta næði til auðlinda sjávar eins og segir í stjórnarsáttmálanum. Auðlindanefndin gekk út frá því að þetta væru almennar náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki væru háð einkaeignarrétti, þetta væri víðtækara en svo að það næði til auðlinda sjávar.

Við vorum hins vegar tilbúin til málamiðlunar til að reyna að liðka fyrir þessu og ná um þetta sátt, að setja inn ákvæðið eins og það er takmarkað í stjórnarsáttmálanum um auðlindir sjávar, að við mundum einskorða okkur við það. Ástæðan er einfaldlega sú að það er mikilvægast á því stigi sem við erum núna. Það er sú auðlind sem er ekki undir neinum einkaeignarréttarákvæðum, hvorki lögaðila, einstaklinga né ríkis. Þess vegna er mikilvægt að taka á auðlindum sjávar og við vorum tilbúin til að takmarka okkur við það ef það hefði getað orðið til samkomulags.

Hvort við í Samfylkingunni ætlum síðan að standa í vegi fyrir því að þetta mál fari í gegnum þingið áskil ég mér bara allan rétt, ágæti þingmaður, til að hlusta á þau rök sem munu koma fram frá stjórnlagafræðingum okkar í þessari umræðu og meta stöðuna eftir að búið verður að fjalla um þetta í þingnefnd. Til þess hlýtur starf þingnefndarinnar að vera, að varpa frekara ljósi á málið.