133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[16:40]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hafi ég skilið hv. þingmann rétt vill Samfylkingin beina sjónum sínum að þessu leyti eingöngu að auðlindum sjávar en ekki að öðrum náttúruauðlindum. Þess vegna hlýt ég að spyrja hv. þingmann hvort það sé til einföldunar og geti orðið til þess að hv. þingmenn Samfylkingarinnar styðji frumvarpið ef eingöngu yrði tekið á auðlindum sjávar sem við erum bæði sammála um að séu ekki háð einkaeignarrétti nokkurs aðila.

Þess vegna óska ég eftir því að hv. þingmaður upplýsi þingheim um það hvort það megi verða til þess að Samfylkingin gangi í lið með stjórnarflokkunum og styðji þá viðleitni Framsóknarflokksins sem stjórnarandstaðan var tilbúin til að gera í síðustu viku, ef eingöngu verður fjallað um auðlindir sjávar í stjórnarskránni.