133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[17:41]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að árétta það fyrir hv. þingmanni þá fjallar þetta frumvarp um að setja inn ákvæði í stjórnarskrána um þjóðareign á náttúruauðlindum, þar með taldar auðlindir hafsins, þ.e. um eign þjóðarinnar. Hitt er svo annað mál hvernig lögum um stjórn fiskveiða, og þar með hvernig eign þjóðarinnar er hagnýtt, er háttað hverju sinni. Ég vara sterklega við því að við blöndum þessu tvennu saman, þ.e. annars vegar stjórnarskrárákvæðinu um þjóðareignina og hins vegar lögum um hvernig nýta eigi þessa auðlind.

Það vakti hins vegar athygli mína að hv. þingmaður sagði að betra væri heima setið en af stað farið. Þetta veldur mér nokkrum áhyggjum. Nú liggur fyrir að hv. þingmenn Frjálslynda flokksins, eins og aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar, hafa tafið afgreiðslu málsins á þinginu með því að koma í veg fyrir að það yrði tekið á dagskrá á föstudag. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort hv. þingmenn Frjálslynda flokksins ætli að koma í veg fyrir afgreiðslu málsins á þingi og hvort svo sé komið að hv. þingmenn Frjálslynda flokksins ætli að ganga þar í lið með Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Er virkilega svo komið, hæstv. forseti?