133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[17:44]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi hefur hv. þingmaður ekki fremur en aðrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar skýrt það út af hverju málið var tækt til umræðu á laugardegi en ekki föstudegi. Það er auðvitað æskilegt að hv. þingmaður reyni að skýra það út fyrir þingi og þjóð hvernig á því stóð að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar töldu ástæðu til að tefja fyrir afgreiðslu málsins með því að vilja ekki ræða málið á föstudegi en vildu ólmir koma og ræða það á laugardegi. Þetta eru auðvitað engin rök, hæstv. forseti.

Hv. þingmaður vék sér algerlega undan því að svara hinni spurningu minni. Hún sneri að því hvort Frjálslyndi flokkurinn ætlaði að koma í veg fyrir afgreiðslu málsins á þessu þingi og ganga þar með í lið með Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Ég vænti þess, hæstv. forseti, að hv. þingmaður svari því skýrt og skorinort og af fullri hreinskilni.