133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[18:04]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þjóðareign í dag er algjörlega óskilgreind, það er ekkert inni í þjóðareigninni. Það er löggjafinn sem skilgreinir það. Hugmyndir auðlindanefndar gengu út á það á sínum tíma að stjórnarskráin veitti því vernd að löggjafinn skyldi ekki í framtíðinni taka tilteknar auðlindir og afhenda þær varanlega án gjalds eða með gjaldi.

Svar hæstv. ráðherra, sem er annar flutningsmaður þessa máls, er í reynd á þann veg að verði þetta ákvæði að lögum er aðeins um yfirlýsingu að ræða sem hefur ekkert raunverulegt efnisinnihald. Löggjafinn getur tekið hvaða náttúruauðlindir sem er og afhent þær varanlega án gjalds ef löggjafinn ákveður svo, hvað svo sem það kann að hafa í för með sér fyrir komandi kynslóðir í landinu. Það er, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) mjög gott að þetta skuli hafa komið fram (Forseti hringir.) í andsvari frá hæstv. ráðherra. Fyrir það þakka ég.