133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[18:09]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að öllum sé ljóst að menn ætla ekki að fara að ganga á eignir manna sem eru stjórnarskrárvarðar. Ég var að spyrja um ákvæðið sem á að setja inn í stjórnarskrána, um þjóðareign. Þegar menn útvíkka það með þessum hætti rugla þeir almenning í landinu gjörsamlega í því hvað séu þjóðareignir, með því að búa til ákvæði sem hefur merkingu af þessu tagi, nær yfir allar auðlindir þjóðarinnar, einstaklinganna, fyrirtækjanna og allra. Að koma svo í ræðustól og halda því fram að þarna sé nú aldeilis skýrt að orði kveðið finnst mér algjörlega fáránlegt. Ég tel að úr því að upp á það er boðið og af því að hæstv. ráðherra lýsti innihaldi þessa ákvæðis með hætti sem ég get alveg fellt mig við hljótum við að geta náð samstöðu um að breyta þessari 1. gr. með þeim hætti að hún passi við innihaldið. Svoleiðis á það að vera. Ef menn setja meðal í flösku á að standa utan (Forseti hringir.) á flöskunni hvað er í henni.