133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[18:36]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það situr vel á hv. þingmanni að tala um upphlaup annarra. Aldrei fer hann í nokkur upphlaup.

En herra forseti. Ég get ekki annað heldur en lesið ákveðna stefnubreytingu út úr því að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn sameinast um að taka úr auðlindatillögunni frá árinu 2000 það tvennt sem mér þótti mest hald í varðandi þjóðareignina, þ.e. ákvæðið um að þjóðareignina mætti ekki selja eða láta varanlega af hendi og að hana mætti einungis afhenda til notkunar tímabundið.

Ég les þetta saman við það ákvæði sem ég hef rifjað upp úr greinargerð. Vissulega yrði því að lögum stýrt en þetta tvennt les ég saman. Ég óttast að þetta geti leitt til þess að miklu ríkari efni verði til þess að túlka bæði stjórnarskrá og lög með þeim hætti að það hefðarhald sem nú er á sumum auðlindum verði að lokum að formlegu eignarhaldi (Forseti hringir.)