133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[18:37]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að þetta sé ástæðulaus ótti hjá hv. þingmanni. Ég vil sérstaklega vekja athygli hans á síðustu málsgreininni í greinargerð með frumvarpinu. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá er með frumvarpinu áréttað að þótt ríkisvaldið hafi heimildir til að mæla með lögum fyrir um nýtingu auðlinda til hagsbóta fyrir þjóðina sé slíkt ekki því til fyrirstöðu að einkaaðilum séu veittar heimildir til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum samkvæmt lögum.“

Þetta er gert í dag, til að mynda með lögum um stjórn fiskveiða. Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Eðli málsins samkvæmt leiða slíkar heimildir ekki til óafturkallanlegs forræðis einstakra aðila yfir þeim, sbr. 3. málsl. 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga, nr. 116/2006, þótt þær kunni að njóta verndar sem óbein eignarréttindi.“

En ég fagna því að hv. þingmaður sé tilbúinn til samstarfs við ríkisstjórnarflokkana. Ég vænti þess að hann hafi vit fyrir bæði þingmönnum Samfylkingarinnar og öðrum hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar. (Forseti hringir.)