133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[18:38]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski von til að ég hafi vit fyrir þeim. Það hefur komið fyrir að mér hafi jafnvel tekist að hafa vit fyrir hv. þm. Guðjóni Ólafi Jónssyni. Það stendur ekki á mér varðandi samstarf. Ég vil ná samstöðu um þetta. Ég vil gera það á grundvelli ákvæða sem við vorum sammála um, flokkar okkar beggja, í auðlindanefndinni árið 2000 sem skrifað var undir af hönd sem tilheyrði Framsóknarflokknum. Það stendur ekki á okkur.

Bara svo ég tali alveg út úr pokanum. Ég vil að þetta sé alveg skýrt þannig að ef löggjafinn í framtíðinni kýs að breyta stjórnkerfi fiskveiða verulega, ef aðstæður breytast, þá eigi hann að geta það. Ég gæti svo í betra tómi sagt hv. þingmanni frá því að ég tel að það sé hægt í veigamiklum atriðum án þess að það baki ríkissjóði mikil útgjöld. En ég tel hins vegar að ef ráðist yrði í miklar breytingar þá kynni að skapast hætta á fébótaábyrgð. En þá eru leiðir fram hjá því.

Allt um það. Ég les þetta saman þannig að það sé stefnubreyting hjá þeim herrum (Forseti hringir.) sem náðu samkomulagi þegar þeir læstu krumlunum saman í reykfyllta bakherberginu. (Forseti hringir.) Ég veit ekki hvar það var.