133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[18:45]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson má ekki gera of lítið úr sjálfum sér. Það er alveg rétt hjá honum að hann tók þátt í starfi nefndarinnar. Hann gerði meira en það, hann veitti því forustu og það var afgreidd tillaga frá þessari nefnd.

Það er alveg rétt sem kemur fram hjá þeim manni sem nú situr í stóli hæstv. forseta. Við skulum bara fallast á að það var umræðuvettvangur, umræðugrundvöllur, það var vinnuskjal. (Gripið fram í.) Það breytir ekki hinu að í því sagði, með leyfi forseta, og þetta er umræðugrundvöllurinn sem hv. þm. Bjarni Benediktsson lagði til við nefndina:

„Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum.“

Þar segir líka síðar, gert undir forustu hv. þm. Bjarna Benediktssonar:

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi að því tilskildu (Forseti hringir.) að það sé tímabundið.“

Skýrara getur þetta (Forseti hringir.) ekki verið. Þetta var gert undir forustu þessa efnilegasta þingmanns Sjálfstæðisflokksins.