133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[18:48]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við séum alveg sammála um það, ég og hv. þm. Bjarni Benediktsson, að við stóðum saman að tillögu sem við töldum þá báðir að gæti orðið umræðugrundvöllur. Ég get ekki á einni mínútu eða hálfri gefið hér viðhlítandi útskýringar á því hvernig ég vildi sjá þetta kerfi vera. En ég get alveg svarað spurningu hans um eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Ég er þeirrar skoðunar að núverandi handhafar kvótans hafi töluvert hald í því. Ég held líka að eftir því sem tímanum vindur fram aukist það hefðarhald þeirra, sem ég hef svo kallað, á þessari auðlind.

Hv. þingmaður spyr hvernig ég vilji úthluta auðlindum. Það fer allt eftir eðli auðlindanna. Ég vil fara eftir allt öðru kerfi varðandi auðlindina í hafinu heldur en t.d. varðandi þær auðlindir sem er að finna í loftinu, losunarheimildir, eða í jarðhita (Forseti hringir.) og vatnsaflsréttindum í þjóðlendum sem við eigum saman.