133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[19:03]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég gæti auðvitað tekið langa umræðu við hv. þingmann um kvótakerfið, þýðingu þess fyrir atvinnulíf á Íslandi, en hins vegar er engin ástæða til þess í tengslum við þetta mál. Við erum hér að skapa ramma, við erum að festa eign þjóðarinnar í stjórnarskrá. Síðan skipum við fiskveiðiheimildunum og fiskveiðimálum með lögum. Það höfum við gert. Þá er ástæða til að ræða hvaða áhrif kerfið hefur á einstök byggðarlög.

Hitt vil ég fullyrða að kvótakerfið í heild á þátt í því að við erum með einn fremsta og tæknivæddasta sjávarútveg í heimi sem hefur staðið undir verðmætasköpun okkar árum saman og staðið undir því að við höfum getað sótt fram til þess góða efnahags sem við nú höfum.

Auðvitað eru erfiðleikar á einstökum stöðum, (Gripið fram í.) vissulega, og það er ekkert sjálfsagt mál og ég gæti rætt við hv. þingmann um það. Í heild hefur þetta kerfi þó reynst okkur vel.