133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[19:09]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Kristjánsson kemur mér á óvart. Hann brestur kjark til að upplýsa hvaða flokkur það var sem lagðist gegn því að ákvæði um þjóðareign yrði afgreitt frá nefndinni. Ég hef fulla heimild til þess að spyrja vegna þess að í opinberri fundargerð nefndarinnar kemur fram að hv. þingmaður, formaður stjórnarskrárnefndarinnar, spurðist sérstaklega fyrir um það á fundi nefndarinnar hvort hægt væri að ná samstöðu um það. Það var ekki neitt annað mál fyrir utan breytingar á 79. gr. sem spurst var fyrir um.

Þess vegna er eðlilegt að formaður stjórnarskrárnefndarinnar upplýsi þingið um það hvaða flokkur það var sem lagðist gegn því. Á þeim fundi kom fram að Samfylkingin, Vinstri grænir og Frjálslyndir vildu taka það sérstaklega. Hvað olli því að það var ekki gert? Hvaða flokkur lagðist gegn því? Hv. þingmaður ætti að svara því ærlega.