133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[19:16]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ósammála hv. ræðumanni um að þetta ákvæði sem hér er til umræðu hafi ekkert raunverulegt innihald. Tilgangurinn í því, sem að mínu mati er langsamlega mikilvægastur, er að ákvæðið á að koma í veg fyrir að það skapist varanlegur eignarréttur á auðlindum vegna hefðar. Það finnst mér vera meginákvæðið í þessu og það finnst mér vera ákvæði sem hv. þingmenn í stjórn og stjórnarandstöðu ættu að geta komið sér saman um.

En ég verð að segja og endurtek það að þegar rykið sest eftir þessa umræðu þá held ég að það hljóti að vera hægt að ná niðurstöðum um þetta.