133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[21:39]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Verkefni stjórnmálamanna á sviði auðlindanýtingar er risavaxið. Stefnumörkun hvað varðar verndun lands og náttúru og þar með hvaða auðlindir skuli nýta og hvernig og hver skuli annast eignarhald þeirra, slík stefnumörkun liggur ekki fyrir í löggjöf landsins.

Stjórnarflokkarnir hafa ekki unnið að því verki sem skyldi þrátt fyrir að öllum sem leiða huga sinn að þessum málefnum sé þörfin ljós. Ástæður þessa viljaleysis eru þær að í báðum stjórnarflokkunum eru áhrifamikil öfl að verki sem hafa verið að vinna að því að koma í veg fyrir að ákvæði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að auðlindir sjávar verði bundnar í stjórnarskrá og nái fram að ganga.

En hvers vegna er þetta ákvæði í stjórnarsáttmálanum? Ákvæðið er þar vegna þess að þjóðin hefur aldrei sætt sig við þá einkavæðingu fiskstofna sem felst í framsali veiðiréttarins. Þetta hefur komið skýrt í ljós í könnunum og umræðum árum saman um fiskveiðistjórnarkerfið.

Síðast í dag var kynnt könnun sem Fréttablaðið lét gera og samkvæmt henni segist meiri hluti þjóðarinnar, býsna stór, 66% vera hlynntur því að gerð verði stjórnarskrárbreyting þess efnis að auðlindir séu skilgreindar sem þjóðareign. Minnstur stuðningurinn við þetta er í Sjálfstæðisflokknum. Þar eru þó 62,4% sem styðja að slíkt ákvæði sé sett í stjórnarskrána. Þetta er ekkert nýtt. Fréttablaðið var að spyrja alvöruspurningar. Var að spyrja um það hvort fólk vildi að sett yrðu alvöruákvæði í stjórnarskrána um að þær auðlindir væru þjóðareign.

Ég ætla að vitna í könnun sem birt var í Morgunblaðinu á árinu 2004. Þar var spurt um hvort menn væru ánægðir með kvótakerfið. Þar voru menn í raun og veru að svara sömu spurningunni og hér var svarað. Einungis 18% þjóðarinnar voru ánægð með kerfið. 65% vildu breyta, voru á móti eignarhaldsfyrirkomulaginu sem felst í hinu frjálsa framsali. Þannig að það er ekkert breytt. Svona hefur þetta verið allan tímann.

En stjórnarflokkarnir hafa ekki hlustað á þetta fólk í landinu. (Gripið fram í: Hver kom framsalinu á? Hvaða ríkisstjórn var það?) Hv. þingmaður, við skulum ræða um það atriði, það er alveg nógur tími til þess. Það rann nú upp fyrir ýmsum býsna seint hvað þetta frjálsa framsal þýddi í raun og veru, en það rann samt upp fyrir þeim. Það er orðið ljóst í augum almennings í landinu fyrir löngu og almenningur í landinu hefur svarað í ýmsum könnunum. Framsóknarflokkurinn stóð í miklu sáttaferli í aðdraganda síðustu kosninga. Undir forustu núverandi formanns Framsóknarflokksins náðist sátt um að setja alvöruákvæði í stjórnarskrána um að þessi auðlind, þ.e. sjávarútvegsauðlindin, ætti að vera í þjóðareign til framtíðar.

Sá vilji hefur allan tímann verið skýr. Þó svo að Framsóknarflokkurinn hafi forustu fyrir þessu þá var það nú samt þannig að þar voru flestir ánægðir með fyrirkomulagið í kvótakerfinu. 40% af framsóknarmönnum voru sáttir við það. Það var langhæsta prósenta sem hægt var að finna hjá nokkrum stjórnmálaflokki. En það voru líka 40% á móti og Framsóknarflokkurinn náði þeirri sátt sem ég er hér að vitna til.

En þessi sátt var kynnt fyrir fólkinu í landinu með þeim hætti að menn skildu hana svona, þ.e. að alvöruákvæði kæmu í stjórnarskrána. Nú skulum við bara skoða hver sáttaniðurstaða formanna stjórnarflokkanna er. Út á hvað gengur hún?

Ég hlustaði á hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra í dag og þegar hann lýsti innihaldi ákvæðisins sem er í frumvarpinu var ég honum sammála. Hann lýsti innihaldinu eins og að ákvæðið væri með þeim hætti sem lofað var. Ef menn eru sammála um hvað þeir eru að meina, hvers vegna eru þeir þá ekki líka sammála um það hvað þeir segja um það í lagatextanum sjálfum?

Það var þannig að auðlindanefndin lagði til alveg skýrt ákvæði á sínum tíma og það sama ákvæði birtist síðan sem vinnuskjal frá undirhópi í stjórnarskrárnefndinni. En þá var stigið á bremsurnar, þá kom Sjálfstæðisflokkurinn til og steig á bremsurnar og Framsóknarflokkurinn lét ekki fara mikið fyrir sér þá. Síðan rumskuðu menn þar um slóðir og töldu að það væri rétt að huga að því að standa við fyrirheitin frá því fyrir síðustu kosningar. En hver er svo þessi niðurstaða? Í stað skýrs orðalags um það að þessar auðlindir eigi að vera þjóðareign til framtíðar og að þær eigi að skilgreina sem slíkar, einungis sé um að ræða auðlindir þar sem ekki er um að ræða einkaeignarrétt af neinu tagi, það séu sem sagt auðlindir utan einkaeignarréttar, er komið ákvæði sem segir að allar auðlindir á Íslandi séu þjóðareign. Þar er um að ræða auðlindir sem einstaklingar eiga. Það eru auðlindir af öllu tagi sem hægt er að tala um á Íslandi. Er þetta svo skýrt ákvæði? Ég mundi segja nei. Ég mundi segja að þetta ákvæði væri mjög óskýrt og ruglandi fyrir almenning í landinu og gæti valdið verulegum vanda hvað varðar framtíðina þegar menn ætla að skilgreina hvað þeir eiga við með þessu ákvæði. Þegar Alþingi á að setja lög á grundvelli þessa ákvæðis hlýtur maður að spyrja: Í hvaða tilgangi er verið að gera þetta ákvæði svona óskýrt þegar fyrir liggja tillögur um ákvæði sem inniheldur nákvæmlega það sem um hefur verið talað, þ.e. að Alþingi ætli að leggja það til sem breytingu á stjórnarskránni að tilteknar skilgreindar auðlindir verði þjóðareignir til framtíðar? Við ætlum börnunum okkar og barnabörnum að eiga þessar auðlindir saman eins og við eigum þær núna.

Hvers vegna skyldu menn fara í þennan leiðangur sem felst í því að búa til ákvæði sem er óskýrt með þeim hætti sem raun ber hér vitni? Jú, ástæðan er sú að það var samið um þetta ákvæði milli stjórnarflokkanna, Framsóknarflokkurinn þurfti að ná samkomulagi við Sjálfstæðisflokkinn um þetta ákvæði, í staðinn fyrir að menn setjist hér saman, allir þingmenn á Alþingi Íslendinga, og reyni að ná samkomulagi um það sem til stendur að gera. Það vill bara svo til að allir flokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi hafa lýst því yfir að þeir vilji setja slíkt ákvæði í stjórnarskrána. Það ætti því að vera a.m.k. messunnar virði að setjast yfir þetta en þá ákveða stjórnarflokkarnir sem sagt að gera þetta saman tveir. Það hefur að vísu komið fram í dag að menn telja koma til greina að fara yfir þetta sameiginlega og reyna að leita einhverra sátta. Ég tel að það sé alveg hægt að finna sátt í þessu máli. Úr því að menn eru sammála um innihaldið, hvers vegna ættu þeir ekki að geta orðið sammála um hvað stendur í sjálfri lagagreininni svo að ekkert fari á milli mála? Ég tel fráleitt að það verði gengið þannig frá þessu ákvæði að það verði um það nokkur vafi hvað verið sé að fara.

Þetta er ekki það sem forustuöflin í stjórnarflokkunum tveimur komu sér saman um á sínum tíma og settu í stjórnarsáttmálann. Þetta er ekki það sem Framsóknarflokkurinn lofaði flokksmönnum sínum og kjósendum fyrir síðustu kosningar. Er þetta það sem ríkisstjórnin lofaði kjósendum? Ég segi nei. Er þetta það sem fólst í spurningu Fréttablaðsins sem ég var að lýsa hérna áðan? Ég segi líka nei við því. Er þetta það sem auðlindanefndin lagði til í skýrslu sinni árið 2000? Nei. Er þetta það sem undirnefndin í stjórnarskránni lagði til? Nei.

Framsóknarflokkurinn lofaði kjósendum að auðlindir sjávar yrðu þjóðareign í alvöru. Fylgjendur hans hafa örugglega skilið það þannig og þjóðin sömuleiðis. Ríkisstjórnin lofaði þjóðinni að auðlindir sjávar yrðu þjóðareign í alvöru og fólkið sem svaraði Fréttablaðinu var að svara spurningu sem var borin fram í alvöru um alvöruþjóðareign á auðlindum. Til þess að það geti verið eiga menn ekki að tala um að það sé þjóðareign sem einhver bóndi á í sínu landi, einhver bústofn sem bóndi á, hvort sem það eru kýr eða hænsni. Það nær ekki nokkru tali að menn skuli vera komnir út á þá braut að tala um þjóðareign með þeim hætti sem gert hefur verið núna eftir að ríkisstjórnin skilaði þessu frá sér.

Sporin hræða líka. Getur verið að menn séu á sömu brautum og menn voru hér á Alþingi þegar lögin um samningsveð voru sett? Getur það verið? Hvað var þá gert? Þá var sett inn í löggjöf á Alþingi ákvæði sem er nú 3. gr. laganna um samningsveð. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Eigi er heimilt að veðsetja réttindi til nýtingar í atvinnurekstri, sem skráð eru opinberri skráningu á tiltekið fjárverðmæti og stjórnvöld úthluta lögum samkvæmt, t.d. aflahlutdeild fiskiskips og greiðslumark bújarðar.“ — Í framhaldinu segir: — „Hafi fjárverðmæti það, sem réttindin eru skráð á, verið veðsett er eiganda þess óheimilt að skilja réttindin frá fjárverðmætinu nema með þinglýstu samþykki þeirra sem veðréttindi eiga í viðkomandi fjárverðmæti.“

Hvað þýðir þetta á mannamáli? Þetta þýðir að menn hafa jafngildi veðsetningar á veiðirétti þó svo að menn hafi sett í lögin að það væri bannað að veðsetja veiðirétt. Svona voguðu menn sér að koma fram í löggjöf á Alþingi Íslendinga. Seint hefði maður trúað því að menn væru tilbúnir til þess að fara í sömu göngu við setningu ákvæða í stjórnarskrá lýðveldisins. En getur það verið að menn séu að hugsa þetta með sama hætti, þ.e. að þetta ákvæði sem lagt er til að verði í stjórnarskránni sé hugsað út frá þeim vilja að þjóðareignin sem við erum að tala um, þ.e. fiskstofnarnir við landið, geti verið óðalsréttur og eign útgerðarmanna inn í framtíðina þrátt fyrir þetta ákvæði — eða vegna þess? Ef þjóðin ætlar að eiga eitthvað til framtíðar verða ríkisvaldið og Alþingi að gæta þess eignarréttar fyrir hönd þjóðarinnar alveg eins og einstaklingar gæta síns eignarréttar. Það er enginn undansláttur sem hægt er að hafa á slíku. Það var þess vegna sem auðlindanefndin sagði á sínum tíma í sínum afskilnaði að það yrði að skilgreina þessar auðlindir og ákveða til hve langs tíma þær væru látnar af hendi í hendur aðila sem nýttu þær eða gera það með uppsegjanlegum hætti. Eins og því er lýst í tillögum auðlindanefndarinnar er ekki hægt að misskilja það. Það þýðir að það er skylda þess sem fer með eignarhaldið fyrir hönd þjóðarinnar að segja slíkum samningum upp til þess að ekki missist eignarréttur eða hefðarréttur á nýtingunni. Sú er í raun og veru niðurstaðan.

Ef menn eru hér með ákvæði sem er hægt að líta þannig á að þeir aðilar sem nú hafa, samkvæmt þessu ákvæði, þessar svokölluðu þjóðarauðlindir til nýtingar og er hægt að skilja ákvæðið þannig að þeir geti haft þá nýtingu með höndum inn í óendanlega framtíð án þess að til staðar séu ákvæði sem gilda um það er í raun og veru ekki um þjóðareign að ræða, heldur óðalsrétt viðkomandi aðila. Ég hef þann grun að ýmsir lesi þetta ákvæði með gleraugum af þessu tagi. Með því að kalla allar auðlindir Íslendinga þjóðareignir er blandað saman annars vegar þeim þjóðareignum sem hægt væri að líta á sem eignir þjóðarinnar sjálfrar til framtíðar og eignum einstaklinga og rugla þannig það sem um er að ræða. Frá því að þessi umræða kom upp eftir að auðlindanefndin skilaði af sér höfum við alltaf litið þannig á að við værum að ræða um auðlindir sem þjóðin sjálf ætlaði að eiga og væru skilgreindar sem slíkar. Ef þessi tillaga sem hér er til staðar þar sem allar auðlindir hafa sama heitið, verða allar kallaðar þjóðarauðlindir, er að mínu viti a.m.k. mikil hætta á því að menn missi tökin á því sem þarna stóð til að gera. Hvers vegna skyldu menn vilja gera það?

Nú er ekkert vandamál að finna orðalag sem segir nákvæmlega það sem innihaldslýsing hæstv. viðskiptaráðherra veitti okkur að heyra í dag. Það er samt þannig að ef menn meina hlutina eins og þeir segja þá er líka full ástæða til að gera kröfu um það að lagatextinn segi það sama og það sé ekki misskilið hvað er á ferðinni. Menn hafa talað um hvort stjórnarandstaðan sé tilbúin til samstarfs um þetta mál. Auðvitað erum við tilbúin til samstarfs um að ganga þannig frá þessum ákvæðum að allir geti vitað nákvæmlega hvaða áhrif verða af þeim. Það er ekki nóg að setja það í einhvern texta eða halda um það ræðu hér. Við höfum stjórnarskrána í höndunum. Eru menn sífellt að draga upp ræðurnar sem voru haldnar á Alþingi þegar hún var sett? Ég held ekki. Stjórnarskráin á að vera skorinorð og skýr og í henni á að standa nákvæmlega það sem menn ætlast til að sé þar inni.

Hér er á ferðinni tillaga um óskýrt orðalag og ég tel að það yrði Alþingi til sóma að taka á þessum málum með þeim hætti (Forseti hringir.) að það yrði ekki misskilið.