133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[21:59]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Mér hefur heyrst hér í dag að stjórnarandstaðan tali a.m.k. tveimur röddum. Annars vegar er gagnrýnt að undirbúningur frumvarps þessa sé ekki nægjanlega mikill og góður, að málið sé óljóst eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson tók m.a. til orða. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson talar um að stjórnarandstaðan hafi ekki verið spurð. Í hinu orðinu liggur fyrir að stjórnarandstaðan lýsti sig reiðubúna fyrir rétt rúmri viku til að greiða fyrir því að ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum sem ekki eru háðar einkaeignarrétti yrðu tekin upp í stjórnarskrá. Ég geri ráð fyrir að sú yfirlýsing standi enn. (Gripið fram í.) Hins vegar var það sameiginlegt mat þingflokka stjórnarandstöðunnar varðandi undirbúning málsins að sá efniviður sem fyrir liggur í áliti auðlindanefndar frá árinu 2000 og í tillögum stjórnarskrárnefndar um auðlinda-, umhverfis- og mannréttindamál myndi fullnægjandi grundvöll til að ljúka málinu.

Ef þetta heitir ekki að tala tveimur röddum veit ég ekki hvað það er í mæltu máli. Látið hefur verið að því liggja að markmiðið með frumvarpinu sé eitthvað allt annað en segir í framsöguræðu forsætisráðherra, í athugasemdunum með lagafrumvarpinu og m.a. í flokksþingsályktunum Framsóknarflokksins að skuli vera markmiðið. Markmiðin eru fyrst og fremst þau tvö með frumvarpinu, að tryggja eignarhald þjóðarinnar á öllum náttúruauðlindum Íslands sem ekki eru háðar einkaeignarrétti og svo hitt markmiðið, að kveða upp úr með það að veiðiheimildir eru afnota- og hagnýtingarréttur en ekki beinn eignarréttur.

Af öllu þessu sem ég hef tiltekið, framsöguræðu forsætisráðherra, athugasemdum með frumvarpinu — (Gripið fram í: Ekki laga…) og það er alveg ljóst að það er líka afstaða okkar framsóknarmanna, allra sem eins, eins og sýnir sig í stjórnarsáttmálanum og í ályktunum flokksþings okkar, að það er eindregin og mikil samstaða um að eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindunum skuli binda í stjórnarskrá. Að mínu mati fer þetta ekkert á milli mála. En þegar svona reglur eru settar, stjórnarskránni er breytt eða lögum almennt, þarf fyrst og fremst að vera ljóst hvert markmiðið er. Ég hefði talið að allir þeir þingmenn sem nú sitja á Alþingi hefðu getað verið sammála um þessi markmið og þá er líka orðinn grundvöllur að því að stjórnarflokkarnir og stjórnarandstaðan standi saman að þeirri breytingu á stjórnarskipunarlögum sem hér er lögð til.

Ef menn eru sammála um markmiðin eiga þeir að geta verið samstiga, ég tel það gerlegt og mjög gerlegt að stjórn og stjórnarandstaða standi saman að þeirri breytingu sem frumvarp þetta leggur til hér á þingi.

Ég held að lykilatriðið í öllu þessu máli felist í hugtakinu þjóðareign. Í greinargerð frumvarpsins er vísað til þingsályktunar Alþingis um skipun opinberrar nefndar um auðlindagjald frá 2. júní 1998 og í athugasemdum með frumvarpinu er vísað til tillögu auðlindanefndar að stjórnarskrárákvæðinu frá árinu 2000. Hugtakið er skýrt mjög vel í skýrslu auðlindanefndar og ég sé engin rök til annars vegna þessarar tilvísunar í frumvarpinu en að byggja á þeim skýringum til fyllingar um merkingu hugtaksins þjóðareign í því frumvarpi sem við eigum hér að vera að ræða. Auðlindanefnd lagði til á sínum tíma þjóðareignina sem nýtt form á eignarrétti. Auðlindanefndin lagði það til í því skyni fyrst og fremst að samræma mismunandi reglur að íslenskum rétti um eignarhald á þeim landsréttindum og náttúruauðlindum sem ekki eru háðar einkaeignarrétti. Þá er verið að tala um þjóðlendur, auðlindir í jörðu, hafsbotninn og nytjastofna í sjó.

Með þessu heiti og þar með yfirlýsingu um að landsréttindi og auðlindir séu eign þjóðarinnar er jafnframt komið í veg fyrir að aðrir geti eignast beinan eignarrétt að þeim, t.d. fyrir hefð, og í því felst þá sérstaklega munurinn gagnvart hugtakinu fullveldisréttur sem fylgir annars sömu heimildum.

Þarna erum við komin að markmiðinu. Markmiðið er akkúrat þetta gagnvart fiskveiðistjórnarkerfinu að eignarhaldið færist ekki smám saman yfir á handhafa veiðiheimilda í skjóli hefðarréttar. Þess vegna er það alveg rétt núna þegar hér er haft á orði í umræðunni að einhver hefði sagt að þetta breytti engu fyrir þá sem fara núna með heimildirnar. Það er hins vegar verið að horfa til framtíðar. Fræðimenn hafa bent á að ef ekkert verður aðhafst um að binda þjóðareignina í stjórnarskrána megi halda því fram að menn hafi fyrir hefð eignast beinan eignarrétt yfir auðlindinni.

Um inntak þjóðareignar gagnvart hefðbundnum eignarrétti ríkisins felst líka í þjóðareigninni að landsréttindum og náttúruauðlindum að hún verði ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. Fyrirmyndina um heiti og hugsun þessa er að finna í lögunum um friðun Þingvalla. Nauðsynlegt er að byggja þann skilning í hugtakið til þess að takmarka heimildir löggjafans til að selja eða láta varanlega af hendi land eða auðlindir. Þetta er nauðsynlegt vegna 40. gr. stjórnarskrárinnar (Gripið fram í: Þetta er ekki …) sem bannar sölu eða annað afsal fasteigna ríkisins nema heimild sé fengin með lögum frá Alþingi. (Gripið fram í: Þetta er bara ekki í …) Vegna 40. gr. er nauðsynlegt að binda inn í hugtakið þjóðareign að um sé að ræða ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. (Gripið fram í.)

Lokamálsliður 1. gr. frumvarpsins sem við ræðum gerir hins vegar ráð fyrir því að hægt sé að veita einkaaðilum, einstaklingum og lögaðilum heimildir til afnota eða hagnýtingar á auðlindum þjóðarinnar samkvæmt lögum. Frá þessum lokamálslið er sjálfgefið að álykta og gagnálykta að óafturkræf ráðstöfun eða varanlegt afsal sé óheimilt. Það er eðlileg lögskýring en þjóðlendulögin ganga út frá þessu sama og þau eru dæmi um það að eignarráðum ríkisins séu settar skorður og þau ganga út frá því að eignarrétti á landi innan marka þjóðlendna sé ekki afsalað varanlega. Þau heimila hins vegar einstaklingum og lögaðilum að veita megi heimild til hagnýtingar lands og annarra réttinda í þjóðlendum. Eins og segir í lokamálsgrein almennra athugasemda með frumvarpinu leiða eðli málsins samkvæmt slíkar heimildir til afnota eða hagnýtingar ekki til óafturkallanlegs forræðis yfir þeim þótt þær kunni að njóta verndar sem óbein eignarréttindi.

Það verður líka að telja að í þjóðareigninni felist, eins og það var útlistað af auðlindanefnd, að heimild til afnota eða hagnýtingar sé lögskipuð, hvernig heimildin verði nýtt fari eftir lögum frá Alþingi. Einnig er það talið felast í þessu að annað tveggja þurfi að vera, þ.e. tímabundin heimild sem veitt er til afnota eða hagnýtingar eða að hæfilegur fyrirvari þurfi að vera á breytingum á þessari heimild.

Loks er talið felast í þessu að gjald sé tekið fyrir afnot eða aðra hagnýtingu og að það gjald renni til þjóðarinnar. Annar málsliður efnisgreinar frumvarpsins lýtur að þessu þar sem segir að náttúruauðlindirnar skuli nýta til hagsbóta fyrir þjóðina. Að mínu mati felst jafnframt í þessu krafa um hagkvæma nýtingu. Í þessu felst líka krafa um að nýtingin sé á grundvelli sjálfbærrar þróunar svo að tryggt sé að nýtingin verði til hagsældar fyrir þjóðina á hverjum tíma, bæði fyrir þjóðina í nútíð og um alla framtíð.

Löggjafanum er samkvæmt frumvarpinu ætlað það hlutverk að skilgreina nánar hvernig nýtingu náttúruauðlindanna skuli háttað og jafnframt er löggjafanum samkvæmt frumvarpinu ætlað að ákvarða hvað séu náttúruauðlindir en af athugasemdunum með frumvarpinu er ljóst að gengið er út frá mjög víðum skilningi þar sem segir að undir ákvæðið falli hvers kyns hagnýting á náttúrunni, hvort sem er dauðum eða lífrænum efnum, plöntum eða dýrum og í ákvæðinu felist að hagnýta eigi nytjastofna sjávar, hvers kyns auðlindir í jörðu og landgrunni, vatns- og vindafl, jarðnæði og gróður, villt og alin dýr o.s.frv., til hagsbóta fyrir þjóðina. Ég vil, herra forseti, í þessu samhengi jafnframt árétta vegna þess að við erum ekki einungis að tala um fiskveiðiauðlindina, að festa eign þjóðarinnar á henni í stjórnarskrána, heldur náttúruauðlindir þjóðarinnar almennt, að náttúruvernd og friðlýsingar eru ein tegund nýtingar, náttúruvernd og friðlýsingar eru ein tegund auðlindanýtingar og ég minni í því samhengi m.a. á stefnumörkun með frumvarpi iðnaðarráðherra sem gerir ráð fyrir verndar- og nýtingaráætlunum, svokallaðra virkjanakosta. Það frumvarp gerir einmitt ráð fyrir að Alþingi lögfesti og löggjafarvaldið fari með því með sameiginlega ábyrgð allrar þjóðarinnar á nýtingu náttúruauðlinda Íslands sem eign okkar og jafnframt eign komandi kynslóða.

Þetta var það sem ég vildi segja um þetta ágæta frumvarp sem hér liggur frammi. Ég ætla að endurtaka það að ég tel að ef þingmenn eru almennt sammála um markmið frumvarpsins, geta verið sammála vegna tilvísana frumvarpsins til skýrslu auðlindanefndar og tillagna hennar, á ekkert að vera því til fyrirstöðu að þingmenn geti orðið sammála um hvernig staðið verði að þessari breytingu á stjórnarskipunarlögum. Það er markmiðið sem er meginatriðið með þessu og ég tel að með athugasemdunum í frumvarpinu og þeim gögnum sem frumvarpið vísar til fari það ekkert á milli mála að meginmarkmiðið er að tryggja eignarhald þjóðarinnar á öllum náttúruauðlindum landsins sem ekki eru háðar einkaeignarrétti og svo það að kveða upp úr með það að veiðiheimildir eru afnota- eða hagnýtingarréttur, þær eru ekki beinn eignarréttur, og loks að koma í veg fyrir að hægt sé að hefða þessar heimildir sem beinan eignarrétt.