133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[22:21]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég skil ræðu hæstv. ráðherra rétt var hún að segja að markmið þessa frumvarps væri að koma í veg fyrir að það myndaðist hefðarréttur og þá var hún að einhverju leyti að draga úr ákvæðinu í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, þ.e. að úthlutun myndaði ekki eignarrétt. Þetta frumvarp virðist komið í mikilli skyndingu inn í þingið og því langar mig að spyrja: Hvað telur hæstv. ráðherra að nú þegar hafi myndast mikill eignarréttur? Ef marka má ræðu hæstv. byggðamálaráðherra, formanns Framsóknarflokksins, sem er nú örugglega hér í húsinu, má ætla að þetta hafi verið ákaflega vel undirbúið og þess vegna hlýtur þetta að liggja ljóst fyrir hjá hæstv. umhverfisráðherra, sem er lögfræðingur, sem vill að einhverju leyti koma í veg fyrir þá þróun að þarna myndist hefðarréttur.