133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[22:49]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var einmitt að velta því fyrir mér, þegar hv. þingmaður óskaði eftir því að veita andsvar, hvar hann skyldi bera niður. Ég átti helst von á því að hann kæmi inn í þetta stjórnarskrárákvæði og fjallaði um það efnislega. Nei, það var ekki þannig, hann endaði i Brussel. Ég veit ekki hvort það var til að finna nýjan flöt á umræðunni eða hvað er í gangi en hann a.m.k. ákvað að fara til Brussel og koma þaðan og spyrja: Hvað ef við gerðumst aðilar að Evrópusambandinu, ef ég skildi hann rétt? Mundi ákvæði um þjóðareign auðlindarinnar koma í veg fyrir það? Er það ekki nokkuð réttur skilningur á spurningunni?

Virðulegi forseti. Ég hefði haldið að þegar við værum búin að festa ákvæði í stjórnarskrá sem skilgreindi að náttúruauðlindir væru þjóðareign þá stæðum við einfaldlega betur að vígi í viðræðum við Evrópusambandið.

Ég vissi ekki að hv. þingmaður hefði mikinn áhuga á því að ganga í Evrópusambandið. Það er algerlega nýtt í þessari umræðu og kannski ákveðin tíðindi. En eftir á að hyggja, þótt hv. þingmaður hafi komið mér á óvart með fyrirspurn sinni, hvert hann leiddi umræðuna og hvaðan hann kom að henni, þarf ekki að koma á óvart þegar menn hafa svona málstað að verja að þeir flýi eins og fætur toga til Brussel og reyni að nálgast umræðuna þaðan.