133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[22:51]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að játa að mér finnst ómaklegt að láta eins og þessi áhugaverði vinkill á málinu komi þessari umræðu ekki við. Það liggur fyrir að hv. þingmaður og flokkur hans hafa áhuga á hvoru tveggja, annars vegar að fara í Evrópusambandið með því sem því fylgir og hins vegar að koma ákvæði um þjóðareign með tilteknum skilmálum inn í stjórnarskrá.

Ég velti fyrir mér hvort í þessu felist mótsögn eða hvort þetta sé með einhverjum hætti samrýmanlegt. Mér fannst hv. þingmaður ekki svara spurningunni. Mér fannst hann frekar svara spurningunni á þá leið að stjórnarskrárákvæði kynni að vera með einhverjum hætti umsemjanlegt eða háð samningum við Evrópusambandið, væri einhvers konar tæki í samningum við Evrópusambandið. Ég veit ekki hvort ætti þá undan að láta, Rómarsáttmálinn eða ákvæði í stjórnarskrá Íslands.