133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[23:15]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Við höfum í dag átt langar og ítarlegar umræður um það frumvarp til laga um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins sem hæstv. forsætisráðherra og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafa lagt fram á þingi. Það hefur komið fram í máli fjölmargra hv. þingmanna í dag að þetta frumvarp á sér auðvitað rætur í umræðum sem átt hafa sér stað á undanförnum árum, og m.a. hefur í þessum umræðum oft verið vísað til starfs og viðfangsefna stjórnarskrárnefndar sem hefur starfað frá janúar 2005 og stundum með nokkuð glannalegum skýringum og túlkunum.

Það er rétt að ítreka það sem hv. síðasti ræðumaður rifjaði upp, að þetta stjórnarskrárstarf hófst með tilvísan til nokkurra tiltekinna kafla stjórnarskrárinnar en að kröfu forustumanna stjórnarandstöðunnar var áréttað að þeir mundu ekki taka þátt í þessu starfi nema að um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar yrði að ræða. Auðvitað var á það fallist enda var markmiðið með því starfi að ná utan um það og mynda góða sátt um heildarendurskoðun og að nefndin byggði verklag sitt og viðfangsefni á þeim forsendum.

Komið hefur fram að auðlindaákvæði af einhverju tagi var meðal þessara viðfangsefna og um það nokkuð fjallað í nefndinni á ýmsum fundum en hins vegar vil ég, til að það komi skýrt fram í þessari umræðu, minna á að það var langt í frá eina viðfangsefni þeirrar nefndar.

Í vetur lá fyrir að ekki tækist að ljúka þeirri heildarendurskoðun sem að var stefnt. Þar á meðal voru lausir endar í sambandi við þetta ákvæði og raunar fjölmörg önnur. Í sumum tilvikum var alllangt á milli manna, í sumum tilvikum var skemmra á milli en þegar ljóst var að heildarendurskoðuninni yrði ekki lokið varð niðurstaða nefndarinnar að svo stöddu sú að skila tillögu til forsætisráðherra um breytingu sem varðaði aðferðina við að breyta stjórnarskrá sem nú er í 79. gr. og hefur það atriði verið í viðræðum milli formanna stjórnmálaflokkanna eins og hv. þingmönnum er kunnugt um.

Hins vegar varð áfram umræða um þetta auðlindaákvæði og eins og menn þekkja lyktaði þeim málum með því frumvarpi sem hér liggur frammi. Af ummælum hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar í þessum umræðum er ekki alveg ljóst hvernig þeir taka þessu frumvarpi og þá er rétt að fram komi enn og aftur að fyrir nákvæmlega einni viku töldu forustumenn stjórnarandstöðunnar ekkert því til fyrirstöðu að taka frumvarp af þessu tagi til meðferðar í þinginu. Þess vegna hljóma ummæli þeirra í dag um að málið sé algjörlega ótækt með þessum fyrirvara dálítið ankannalega. Það eru ekki nema sjö dagar síðan það var ekki nema sjálfsagt af þeirra hálfu að taka þetta mál til umfjöllunar. Maður veltir fyrir sér hvort maður eigi að taka meira mark á því sem þeir sögðu fyrir viku eða hvort maður eigi að taka mark á því sem þeir segja í dag um það efni. Þetta hljómar a.m.k. ekki eins og að málflutningurinn sé mjög samkvæmur sjálfum sér í þessum atriðum. Maður veltir fyrir sér hvort útspil stjórnarandstöðunnar fyrir viku hafi eingöngu verið tilraun til að hafa áhrif á einhverja atburðarás, verið einhver leikflétta í þeim tilgangi að ná fram því markmiði sem oft hefur komið fram og iðulega af hálfu stjórnarandstöðunnar, hún vill með einhverjum hætti reyna að búa til bil milli stjórnarflokkanna. (Gripið fram í.) Maður hlýtur að velta fyrir sér hvort ummæli þeirra þá (Gripið fram í.) beri að skoða í því ljósi. (SigurjÞ: Er hætt …?) Ég held að sá vandræðagangur sem hefur verið í viðbrögðum stjórnarandstöðunnar við þessu frumvarpi endurspegli eiginlega fyrst og fremst þau vonbrigði sem stafa af því að henni tókst ekki að búa til þá gjá milli stjórnarflokkanna sem hún vonaðist til með sérstökum tilboðum sínum fyrir nokkrum dögum. (Gripið fram í: Nóttin er ung.) (Gripið fram í: … tala um ákvæðin.)

Svo að við víkjum að ákvæðinu sem auðvitað er meginviðfangsefni okkar hér veltir maður líka fyrir sér hvort það hafi í rauninni verið eina forsenda stjórnarandstöðunnar, fyrir utan hugsanlega þetta að skapa bil milli stjórnarflokkanna, að fá fram einhverja breytingu sem ætti með einhverjum róttækum hætti að breyta réttarástandi sem nú er fyrir hendi, breyta réttindum sem nú njóta verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Það hefur mátt skilja ýmsar ræður á þann hátt og í ræðunum hefur jafnframt komið fram mismunandi skilningur á eignarréttindum. Ég vísa m.a. í því sambandi til ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem mér fannst almennt láta í ljósi efasemdir um eignarréttindi og gildi þeirra. Ég velti fyrir mér hvort samkomulag af hálfu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og flokksfélaga hans byggi eingöngu á því að sett verði inn ákvæði sem feli í sér einherja veikingu eignarréttinda eða hvort hann geti fallist á einhverja aðra útfærslu. Í því birtist ákveðinn vandi sem er í þessu — (SJS: ... viðhorf stjórnarandstöðunnar.) Þetta er skýringarræða á m.a. viðhorfum stjórnarandstöðunnar (Gripið fram í.) enda finnst mér rétt að gera henni nokkur skil nú þegar fjölmargar ræður hafa verið fluttar í þessu máli. (Gripið fram í.) Já, hv. þm. Össur Skarphéðinsson hittir auðvitað naglann á höfuðið í því sambandi. Það er nefnilega ljóst að þó að margir hafi talað mjög hástemmt um mikilvægi þess að fá ákvæði um sameign þjóðarinnar, þjóðareign eða eitthvað í þá veru inn í stjórnarskrá hefur það valdið ákveðnum vandkvæðum í þessari umræðu hve mismunandi merkingar menn leggja í slík hugtök. Þetta er auðvitað ekki ný umræða og það er ekki nýtt að álitamál séu fyrir hendi í því sambandi. Það má t.d. minna á að frá því að niðurstaða auðlindanefndar kom út haustið 2000 hafa ýmsir lögfræðingar velt fyrir sér þeirri merkingu sem felst í orðinu og hugtakinu þjóðareign í þeim texta sem þar liggur fyrir. Þessari umræðu var ekki lokið þá og verður kannski ekki lokið í þessari umræðu. Hins vegar verð ég að segja varðandi það atriði sérstaklega að mér finnst þetta frumvarp og sú greinargerð sem liggur því til grundvallar fela í sér skýringar á því hugtaki sem eiga að mínu mati að geta orðið til þess að ákvæði af þessu tagi gangi upp.

Vandamálið í sambandi við hugtök eins og þjóðareign er nákvæmlega þetta, það hefur verið mismunandi túlkun á lögfræðilegum þáttum í því sambandi. Menn hafa túlkað það með mismunandi hætti. Síðan hefur það stundum verið notað með allt öðrum hætti í pólitískri umræðu. Það var m.a. á þeim punkti sem við lentum í ágreiningi eða a.m.k. komu fram mismunandi sjónarmið innan stjórnarskrárnefndar þegar það var til umræðu.

Ég tel, herra forseti, að ákvæði frumvarpsins að þessu leyti og þær skýringar sem koma fram í fyrirliggjandi greinargerð séu verulega til skýringar á þessu og að í því felist það að þegar ákvæði af þessu tagi verði túlkað liggi nokkuð ljóst fyrir hver stjórnarskrárviljinn er í málinu, vilji stjórnarskrárgjafans. Það held ég að sé mjög til framdráttar þessari umræðu og þessu máli. Hins vegar er líka gott í sjálfu sér að ef fram kemur í umræðunni að sumir hv. þingmenn hafi einhverja aðra sýn á það er nauðsynlegt að við ræðum það og förum yfir það. Það er rétt sem hefur komið fram að það er grundvallaratriði að stjórnarskrá feli í sér sem fæst vafamál, að sem fæst vafaatriði séu þar inni falin, og skýringar í greinargerð hvað þetta varðar ættu að geta hjálpað okkur í þessu sambandi. Hins vegar verð ég að segja að athugasemdir ýmissa hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar um það efni benda til þess að mínu mati að skilningur þeirra á þessum hugtökum og þessari hugtakanotkun stafi fyrst og fremst af því að þeir hafa áhuga á því og það er hvatinn að aðkomu þeirra að málinu að þeir vilja með einhverjum hætti nýta stjórnarskrána eða stjórnarskrárbreytingu til að breyta einhverju réttarástandi sem er fyrir hendi í dag. Mér finnst það bæði endurspeglast í ræðum sem hér hafa verið fluttar og eins í ýmsum athugasemdum sem fram hafa komið í fjölmiðlum að ýmsir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar líta í rauninni á þessa stjórnarskrárbreytingu sem einhverja leið til að koma í kring breytingum á réttarástandi og það litar viðhorf þeirra í málinu. Nægir í því sambandi að vísa til ummæla sem hv. 1. þm. Reykv. n., Össur Skarphéðinsson, hefur haft uppi í þessu sambandi og ég vísaði til í andsvari fyrr í dag. Hv. þm. sagði í viðtali við Jóhann Hauksson á þeirri merku útvarpsstöð Útvarpi Sögu fyrir rétt um viku að hann liti á það sem tilgang svona stjórnarskrárbreytingar að skapa það réttarástand að hægt væri að taka einhver réttindi til baka, eins og hann orðaði það, og þar með að ná fram einhverjum breytingum. Þegar þetta liggur fyrir kristallast kannski hvað menn líta silfrið misjöfnum augum. Menn hafa ólík sjónarmið í þessum efnum. Jafnvel þótt menn noti stundum sömu hugtökin eða sömu orðin í orðræðunni kann að búa að baki mismunandi vilji.

Yfir þetta verður auðvitað farið í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar. Það eru atriði í þessu þar sem menn þurfa að ná fram einhverjum sameiginlegum skilningi og menn þurfa að velta upp þeim álitamálum sem kunna að koma upp í þessu sambandi. Ég vil nota þetta tækifæri til að segja fyrir mína parta að ég vænti þess að það sama eigi við um aðra sem sitja í þeirri nefnd sem fær þetta til meðferðar og mun auðvitað nálgast verkefnið með það fyrir augum að vinna málið vel. Eins og fram hefur komið í máli margra hv. þingmanna hljótum við að nálgast stjórnarskrána og breytingar á henni af virðingu, og vanda til verka. Ég held að allir sem koma að því verki muni nálgast það út frá því sjónarmiði.