133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[23:30]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var sérkennileg ræða. Hv. þingmaður fór í gegnum feril málsins og síðan hvað stjórnarandstaðan vildi í umræðunni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvert markmiðið er með frumvarpinu. Mig langar að vitna til ræðu sem hæstv. forsætisráðherra flutti á LÍÚ-þingi þar sem hann sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Brýnasta verkefnið er að treysta þá sátt sem er um núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Eyða þarf enn frekar óvissu um réttarstöðu útgerðarmanna, þannig að ljóst liggi fyrir að réttindi þau sem þeir nú kaupa á markaði muni ekki á einni nóttu verða af þeim tekin.“

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort þetta sé markmiðið með þessum stjórnarskrárbreytingum, þ.e. að festa kerfið og eignarhaldið enn frekar í sessi, eins og hæstv. forsætisráðherra boðaði á þingi LÍÚ í haust.