133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[23:32]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held það hafi komið skýrt fram af hálfu flutningsmanna frumvarpsins í umræðum fyrr í dag að tilgangurinn með því er ekki sá að veita mönnum meiri réttindi en þeir njóta í dag og ekki að veita þeim minni réttindi. Ég held að sá skilningur frumvarpshöfunda liggi skýrt fyrir og ég get út af fyrir sig fallist á það.

Ég held hins vegar að almennt séð, í hinni pólitísku umræðu, væri til bóta ef deilum um sjávarútvegsmál og um fiskveiðistjórnarkerfið mundi linna. Ég held að hv. þm. Sigurjón Þórðarson, sem er áhugamaður um að umbylta núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, ætti að einbeita sér að annarri lagasetningu en stjórnarskránni til að reyna að ná fram þeim markmiðum sínum að umbylta því kerfi.