133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[23:33]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Svar hv. þingmanns kemur mér mjög á óvart. Hæstv. ráðherra byggðamála flutti ræðu í dag og sagði að um grundvallarbreytingu væri að ræða. Síðan kemur hv. þingmaður og segir að ekki sé um neina breytingu að ræða. Maður spyr: Hvað er í gangi? Hvað ætla menn sér með þessa stjórnarskrárbreytingu? Það virðist ekkert að gerast ef marka má hv. þm. Birgi Ármannsson. Síðan segir hæstv. ráðherra byggðamála að um grundvallarbreytingu sé að ræða.

Ég spyr: Hvað með fólkið í landinu sem þarf að leigja aflaheimildir fyrir 70% af tekjunum af aflanum? Er þetta einhver breyting fyrir það? Er þetta breyting fyrir byggðir landsins, sem blæðir? Ég vil spyrja hv. þingmann að því. Þeir flokkar sem hafa komið þessu óréttláta kerfi á skulda fólki ákveðin svör. Það þýðir ekkert að halda ríkisstjórnarfundi til að fresta málunum. (Forseti hringir.) Fólkið í landinu þarf svör og þolir ekki þetta (Forseti hringir.) kerfi áfram.